24 July 2012

Hitt og þetta

Um þessar mundir er ég að vinna að verkefni sem verður ótrúlega spennandi að sjá útkomuna á. Ég er í hóp af handavinnufólki sem ætlar að graffa heilan strætó. Það er öllum velkomið að vera með í þessum hópi okkar - svo ef þú hefur áhuga smelltu þá hér og vertu memm.

Í stað þess að hekla e-ð nýtt þá fór ég ofan í kassa og fann dúllur úr hálfkláruðum verkum sem hafa legið þar í ár eða lengur. Að svo stöddu er ég komin með fjórar sessur og eitt bak - sem sé á strætósæti.



Ég fann 28 þríhyrninga sem ég ætla að gera lengju úr.



Og 22 jólahjörtu sem fara líka í lengju. 



Ég er að kenna Jóhönnu systur minni að hekla.
Aþena dóttir hennar hjálpaði mömmu sinni samviskusamlega
að athuga hvort það væru nokkuð flækjur í garninu.



"Get ekki betur séð en að garnið sé í lagi"


Afrakstur æfingarinnar var þessi stórglæislegi hálsklútur c",)


Nú er systir mín byrjuð á alvöru verkefni
og stefnir á að klára eitt stykki Hexagon peysu úr Þóru heklbók.



20 July 2012

Advania teppi

Hugmyndin að þessu teppi er fengin af logo-inu hjá Advania og því kalla ég það Advania teppið. Þetta mynstur heitir víst samt Tumbling Blocks.



Þetta eru þrílitir sexhyrningar sem eru heklaðir saman og eiga að mynda svona þrívíddar-mynstur. 
Teppið er mjög svo flott þótt ég segi sjálf frá. Ég er svo skotin í þessum litum saman. 

Mér gengur samt frekar illa að ná myndum af því sem ég er sátt við. Finnst mynstrið ekki sjást alveg nógu vel og ekki litirnir heldur. En þannig er það bara stundum.








Fékk Móra kallinn til þess að pósa svo aðeins með teppið.
Hann er varla ungabarn lengur, er svo duglegur að stækka.
Vorum í 5 mánaða skoðun og hann er orðinn 70 cm og 8.745 gr.










18 July 2012

Hekldagbók

Um daginn fór ég út í búð og keypti garn í peysur sem ég ætlaði að hekla handa Móra og Aþenu. En eins og ég sagði í fyrri færslu þá keypti ég vitlaust garn og peysan hans Móra varð alltof þung. Því ákvað ég að hekla ekki aðra eins peysu fyrir Aþenu heldur gera öðrvísi peysu sem passaði fyrir Kambgarnið. Ég ákvað að halda smá dagbók yfir þetta hekl mitt...sýna þróunina í myndum fyrir hvern dag.

Dagur 1:
Heklaði eina og hálfa ermi.
Ákvað að hekla ekki endana jafnóðum því mér fannst það sjást of mikið.


Dagur 2:
Kláraði seinni ermina og gekk frá endum í ermum.
Það var ágætis verk.
Byrjaði á bolnum.
 


Dagur 3:
Kláraði bolinn og gekk frá endum í honum.
Byrjaði og kláraði berustykkið og festi þannig ermarnar við bolinn.


Dagur 4:
Kláraði að ganga frá endum.
Saumaði saman ermarnar.
Heklaði boðunginn, eins og það er kallað.
Gerði tvær misheppnaðar snúrur
og náði því ekki að klára peysuna þennan daginn.
 


Dagur 5:
Bjó til þriðju snúruna.
Það er ekki alveg fyrir mig að gera snúrur.
Þræddi snúruna í hásmálið og voila peysan er tilbúin.
Og bara frekar flott þótt ég segi sjálf frá.



Er voða skotin í þessu V-mynstri.
Það væri hægt að gera virkilega fallegt teppi úr því.


Uppskrift: Þóra heklbók
Stærð: 12-18 mánaða
Garn: Kambgarn, tæpar 5 dokkur
Heklunál: 3,75

15 July 2012

Æði æði æði

Þótt þetta sé ekki beint handavinna
þá bara verð ég að deila þessari gleði með ykkur.

Ég var að labba í Hlíðunum í vikunni og rakst á þetta æði. 
Stjúpur, gróðursettar í skó, á trjástubbum

Mér finnst þetta svo skemmtilegt að ég á ekki nógu stór orð til að lýsa því. 
Enda segja myndir meira en þúsund orð.









10 July 2012

Hekluð peysa

Ég fann uppskrift til sölu á Etsy af heklaðri peysu sem stælar íslensku lopapeysuna. Þar sem ég legg ekki í að prjóna svoleiðis stykki ákvað ég að kaupa mér þessa uppskrift og hekla peysu.


Peysuheklið fór ekki alveg eins og ég ætlaði. Ég gerði nefninlega smá fljótfærnismistök. Þegar ég las uppskriftina yfir þá stóð að ég ætti að nota heklunál H / 8. Ég var svo spennt fyrir peysunni að ég athugaði þetta ekki betur heldur tók því sem svo að ég ætti að nota heklunál nr 8. Fannst það reyndar soldið spes að nota svona stóra nál...en það stóð í uppskriftinni. Ég ákvað því að nota Kambgarn í peysuna og hafa það tvöfalt.

Ég fattaði mistökin mín þegar ég tók upp heklunál nr 8 og sá að á henni stóð J en ekki H. Ég athugaði málið betur og komst að því að H/8 er heklunál nr 5. Það þýddi að tvöfalt Kambgarn var alveg í þykkari kanntinum. En ef ég notaði það einfalt varð þetta svo lítið. Ég ákvað því að halda tvöfalda garninu og notaði nál nr 6.

Útkoman er voða fín peysa. Hún lítur vel út...en hún er frekar þung. Ég gerði hana í 12-18 mánaða stærð en reikna með að hann Móri minn geti notað hana í vetur.


Fékk Aþenu Rós systurdóttir mína til að sýna peysuna því hún er orðin svo dugleg að sitja.
En eins og þið sjáið er peysan aðeins of stór.







Ég ætlaði að gera aðra peysu handa Aþenu en þarf að finna annað garn í það. Ætla að kíkja á Navia garnið og sjá hvort það sé hentugra.

Annars er þetta eins og ég segi fínasta peysa og frekar létt að hekla hana. Tók mig ekki nema 3 kvöld.


Og hvar er svo peysan mín?!

08 July 2012

Garn og litaúrval

Ég pæli mikið í litasamsetningum og ef ég sé myndir með fallegum litum þá geymi ég þær. Áður en ég byrja svo á nýju verki fletti ég oft í gegnum myndirnar sem ég hef safnað saman og fæ hugmyndir.


Ég lendi hins vegar oftast í veseni því ég finn aldrei garntegund sem er með alla þá liti sem mig langar í. Það er kannski óraunhæft að ætlast til þess. En mér finnst það frekar súrt hvað það er erfitt að finna fallega, bjarta, skæra liti sem svona poppa...en ég er ekki að meina neon. Ef þið skiljið hvað ég meina.


Núna um daginn var ég að fara að byrja á verkefni og var með nokkrar myndir sem mig langaði að styðjast við.


Eigandi: Pricillas


Eigandi: ...yarnroundhook...


Eigandi: Vickie Howell


Eigandi: Kristibee1


Eigandi: Emma Lamb


Ég ákvað að nota Kambgarn í verkefnið og arkaði af stað í Hagkaup í Skeifunni til að finna garn. Kannski var bara lélegt úrval þar en mér fannst ég ekki finna litina sem ég leitaði að. Það eru margir fallegir litir í Kambgarni en þeir eru allir frekar daufari en það sem ég var að leita eftir. Sem er allt í lagi líka en ekki alltaf.



Þetta eru svo litirnir sem ég endaði með:




Hvað finnst ykkur? Finnst ykkur erfitt að finna garntegund sem hefur breitt, fallegt og bjart litaúrval? Kannski þið getið mælt með e-u garni?

Það er svo fyndið að segja frá því að ég var svo djúpt sokkin í þessar garnpælingar mínar í Hagkaup að ég lagði símann minn frá mér í hilluna og skildi hann eftir þar. Var komin alla leið upp á Snorrabraut þegar ég fattaði það. En sem betur fer var e-r heiðarlegur og fór með símann í þjónustuborðið og ég fékk hann aftur c",)



04 July 2012

Kross-saums-tölur

Ég hef áður bloggað um systur mína og vörurnar sem hún er að gera.

Að mínu mati er hún alger krosssaums-snillingur og ég má til með að blogga um nýjung hjá henni. Kross-saums-tölur.
Þær eru ekkert smá sætar. Ekki mjög stórar. Og kosta ekki nema 290 kr. stykkið. 
Sem er gjöf en ekki gjald fyrir svona skemmtilega vöru.

Hérna eru myndir af peysum sem mamma prjónaði handa Móra og Aþenu.Með Bangsa og Hello Kitty tölum.

Tölurnar setja virkilega skemmtilegan svip á peysurnar...sem eru ansi flottar.






Ef þið hafið áhuga hafið þá endilega samband við hana í gegnum FB síðu Guðrúnardætra.


Fröken Aþena Rós ótrúlega sátt í fínu peysunni sinni
(mynd bætt við færsluna þann 8. júlí)