30 May 2011

Ofið hekl - leiðbeiningar


Upphafslykkjur: Heklið loftlykkjur þar til þið eruð komin með þá breidd sem þið viljið. Endatalan verður að vera deilanleg með 2. Bætið svo 1 ll við.
1. umf: Heklið 5 ll (telst sem 1 st og 1 ll), 1 st í 6. ll frá nálinni, *1 ll, hoppið yfir 1 ll, 1 st í næstu ll*, endurtakið út umferðina.
2. umf: Heklið 4 ll (telst sem 1 st og 1 ll), 1 st í næsta st fyrri umf, *1 ll, 1 st í næsta stuðul*, endurtakið út umferðina.

Endurtakið 2. umf þar til þið eruð komin með þá lengd sem þið viljið.
- Það kemur vel út að skipta óreglulega um lit þá verður köflótta mynstrið mun skemmtilegra.

Stykkið ykkar ætti þá að líta svona út. Eins konar netamynstur.


Þá er bara að ganga frá endum og byrja á að hekla lengurnar.

Lengjurnar eru einstaklega auðveldar. Þær eru ekkert annað en loftlykkjur. En það tekur lúmskt langan tíma að hekla þær.
- Ég gerði hverja lengju aðeins lengri en trefilinn því það er jú auðveldara að rekja upp en að bæta við eftir á.


Þegar lengjurnar eru tilbúnar þá er komin tími til að þræða þær í gegnum netið.
Til þess notið þið stoppunál og farið sitt á hvað í gegnum götin.


Þegar allar lengjurnar eru komnar í þarf aðeins að tosa til og laga lengjurnar svo þær séu allar jafn strekktar.
- Það mun líklegast snúast aðeins upp á þær. Ég lét það bara vera þannig.


Mér fannst flóknast að ganga frá endunum. En endaði með því að ganga frá endunum þannig að ég þræddi þá upp með lengjunni og festi þannig í leiðinni lengjuna við netið.
- Ég ákvað að hafa neðstu línuna auða/opna til þess að hafa pláss fyrir kögrið.


Einstaklega auðvelt ekki satt c",)

(Endilega ef þið hafið spurningar eða ábendingar ekki hika við að hafa samband)

11. júní 2011 - International Yarn Bombing Day

Var að rekast á skemmtilegan 'event' á Facebook.

Samkvæmt þessu virðist 11. júní vera Alþjóðlegur garn-graff dagur. Ég er svei mér þá að hugsa um að vera barasta memm í þessu. Er allavegana búin að melda mig 'attending' þarna í grúppunni.
Ég á nokkur stykki sem ég er búin að vera á leiðinni að sauma utan um ljósastaura og annað. Finnst kjörið að nýta þennan dag til þess að skella þessu loksins upp.

Hvað segiði stelpur...og mögulega strákar...eruð til game í smá graff? Skiptir einu hvort það er heklað eða prjónað. Væri ótrúlega gaman að heyra frá e-m sem er til í að vera memm og enn meira gaman að sjá myndir af gröffum sem hent er upp.

Ég er búin að vera að rölta Vesturgötuna soldið upp á síðkastið og er búin að komast að því að það er e-r handavinnukona sem býr þarna á svæðinu. Er alltaf að rekast á ný gröff og þau fá mig alltaf til að brosa út að eyrum c",)
Allar þessar myndir eru af gröffum sem eru á þessu svæði.


26 May 2011

Ofið hekl

Ég ætlaði að taka þátt í Prjónakeppni Hagkaups & Ístex um daginn eeeen frestunaráráttan mín gerði það að verkum að ég náði ekki að klára verkið á réttum tíma. Ég sat sveitt og heklaði til kl. 3 um nóttina deginum fyrir frestinn áður en ég gafst upp.

Í staðinn skelli ég þessu bara hér inn c",)

Ofið hekl er sérstök tegund af hekli en er samt í raun ekkert annað en loftlykkjur og stuðlar. Ég sá þetta fyrst hjá henni Söru minni London og var alls ekki að skilja hvernig hún fór að þessu. En í tveim af heklbókunum sem ég keypti mér í USA þá eru verkefni þar sem ofið hekl er. Þannig komst ég að því hvað þetta er einstaklega auðvelt. En þótt þetta sé einstaklega auðvelt þá er þetta lúmskt tímafrekt.Eins og venjulega þá varð ég að fara út á stétt að taka myndir.
Og svo upp á fönnið ein upp í tré.


Ég notaði Kambgarn og heklunál nr. 3 í þennan trefil.
Ætla að henda inn leiðbeiningum við fyrsta tækifæri svo fleiri geti skemmt sér við að gera ofið hekl.

11 May 2011

Krosssaumur

Guðmunda systir mín er að mínu mati alger snillingur í að sauma krosssaum. Finnst samt alltaf betra að segja krossasaum. Anywho. Er búin að vera að fylgjast með henni sauma núna upp á síðkastið og er eiginlega farið að klæja soldið í puttana að fara að sauma aftur sjálf.

Guðmunda systir er með Etsy síðu þar sem hún selur gripina sína.

Íslands eyrnalokkar
Ég átti par og alveg elskaði þá...elska þá enn en annar týndist.

Íslands bókamerki

Epla nælur
Ekkert smá sætar og græni liturinn er geggjaður.

Star Wars seglar sem hún gerði og gaf Mikael syni mínum í 10 ára afmælisgjöf.
Þeir eru ekkert annað en fokk svalir.

*****

Ég legg samt ekki í svona svaka gripi eins og hún er að gera heldur elska ég svona Subversive Cross Stitch eins og það er kallað á Flickr.

Subversive Cross Stitch er sem sé stæling af hefðbundum saumi, með fallegu dúlleríi og römmum utan um texta. En í stað fallegs texta er dónaskapur, blótsyrði, klámfengni, hæðni, línur úr lögum eða bíómyndum. Þekki ekki alveg "reglurnar" en held að bara það sem þér dettur í hug gangi.

Orðabókaþýðingin á Subversive er:
"l. 1. niðurrifs-; sem kollvarpar eða leitast við að kollvarpa. - n. e-r sem kollvarpar eða leitast við að kollvarpa (e-u); niðurrifsseggur."

Þannig að á íslensku gæti þetta kallast Kollvarps Krosssaumur c",)

*****

Hér eru nokkrar af þeim myndum sem ég er búin að "uppáhald-sa" á Flickr.*****

Ég gerði sjálf nokkrar myndir 2009 og 2010 sem ég skelli með hérna.
Hef auðvitað gert fullt af svona hefðbundnum saumi...sem situr allur inní skáp því ég hef aldrei fundið not fyrir neitt af því...ætti kannski að skella þeim hérna inn seinna.

"Þar sem rassinn hvílir, þar er heimilið."
Tilraun til að stæla gamla góða 'Drottinn blessi heimilið'.
Er sagt að þessi setning sé úr Lion King.

Fann svo geggjaðan tekk ramma í Góða Hirðinum fyrir litlar 400 kr.
Í kjölfarið ákvað ég að sauma út mynd handa mömmu í afmælisgjöf
og lét svo ramma hana inn hjá svona professional gaur.
Þarf vart að taka fram að það kostaði töluvert meira að ramma myndina inn
en nokkurn tímann kostnaðurinn við að gera myndina.

live slow die old
Passar einstaklega vel að hafa hana Guðmundu kisu með á myndinni.
Hún lifir svo sannarlega letilífi...og verður vonandi langlíf.

Helvítis fokking fokk
Ætlaði að gefa Mikael þetta...en honum fannst þetta aldrei jafn töff og mér.

Einn daginn...kannski í sumarfríinu mínu...mun ég hafa tíma til að setjast niður og búa mér til töffara mynd. En akkurat núna er ég búin að skuldbinda mig við hekl verkefni og verð að klára þau fyrst...sem er einstaklega erfitt þegar mar er með haus sem er útum allar trissur.

*Merkilegt nokk þá held ég að þetta sé fyrsta bloggið mitt sem er um e-ð annað en hekl c",)

10 May 2011

Tilraunir...

Ég er í smá tilraunastarfsemi með bloggið mitt og var að breyta leturgerðinni.

EF það er alger ógjörningur að lesa þetta látið mig þá endilega vita...annars er spurning hvort þetta sé komið til að vera.

Langar að gera fleiri breytingar EN ég og blogspot erum ekki alveg nógu góðir vinir og ég hef ekki alveg þolinmæðina til að rúlla þessu í gegn.
Kannski kemur það einn daginn c",)

03 May 2011

Fleiri fleiri krukkur

Ég hugsa að ég fari að teljast furðuleg fljótlega því það er allt í glerkrukkum heima hjá mér. Sem betur fer eru flestar þeirra faldar inní skáp svo gestir og gangandi sjá ekki hvað ég á í raun margar krukkur.

Ég er samt búin að vera smá dugleg að hekla utan um nokkrar þeirra og hér eru þær sem eru tilbúnar.

Krukka #1 í grænuKrukka #1 - par í bleikuKrukka #2 í gráuKrukka #3 í grænuKrukka #4 í páskagulumKrukka #5 í rauðu