27 January 2013

23/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Vatnsblár (1216)
Nál: 3,5 mm

Ég elska elska þennan ferning. Þessi er alveg uppáhalds. Finnst hann frekar mikið töff. Svona eins og fönkí ömmu hekl. Ferningurinn var ekki nógu stór svo ég bætti við 2 eða 3 umferðum til að stækka hann.

Æði! Mæli með honum! Held ég eigi pottþétt eftir að hekla hann aftur.


22/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Gallablár (0942)
Nál: 3,5 mm

Fínasti ferningur. Breytti samt helling í honum. Gekk erfiðlega að finna lykkjurnar í miðju hringnum því ég var með svo dökkan lit. Eru það ellimerki? Svo ég heklaði bara í þær lykkjur sem ég sá og passði bara að loka stuðlafjöldinn væri réttur. Einnig breytti ég til í laufblaðaumferðinni og umferðunum eftir það því ferningurinn varð of stór.


21/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Vatnsblár (1216)
Nál: 3,5 mm

Sætur ferningur. Ákvað að gera nokkra í röð sem eru tvílitir. Þessi uppskrift passaði samt ekki hjá mér. Ég er ekki viss hvort ég gerði villu e-r staðar á leiðinni eða hvort uppskriftin var röng. Ég þurfti allavegana að breyta seinustu þrem umferðum svo þetta gengi upp.

Ég er svooo eftir á með þetta verkefni. Þessi veikindi á heimilinu settu allt á annan endann. Ég er ekki bara eftir á með þetta hekl heldur er ég eftir á í skólanum...og skólinn gengur fyrir.


20 January 2013

20/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Vatnsblár (1216), Blágrænn (1218), Gallablár (0942)
Nál: 3,5 mm

Átti pínupons rest af blágræna litnum sem ég var að nota í byrjun og ákvað að gera einn ferning með þrem bláum litum.

Ég er alveg búin að sjá það að þeir heklarar sem eru að hekla ferning á dag í heilt ár eru bæði mun skipulagðari en ég og ég efast um að þær eiga börn. 

Hann Móri minn er veikur einu sinni enn. Hann virðist svo sannarlega ætla að vera eyrnabólgubarn fyrir allan peninginn. Hann er voða lítill og vill bara láta halda á sér. Þær aðstæður bjóða ekki upp á mikið hekl og sérstaklega ekki þegar ég þarf að sitja við tölvuna og hekla eftir uppskrift. Ég er því búin að vera að "stelast" til að hekla aukaverkefni sem ég þarf ekki uppskrift að.


Mórinn og Mamman saman að hekla og horfa á Söngvaborg.


19/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Tómatrauður (0917), Vatnsblár (1216)
Nál: 3,5 mm

Þetta er virkilega sætur ferningur. En samt var hann ekki að ná að heilla mig nógu mikið. Blómið er sætt og V-mynstrið stendur alltaf fyrir sínu. Samt þá bara náði hann ekki til mín.

18/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Tómatrauður (0917), Vatnsblár (0942), Gallablár (1216)
Nál: 3,5 mm

Fínn ferningur og auðveldur að hekla. samkvæmt uppskriftinni átti að hekla í aftari hluta lykkjunnar, ég nennti því ekki og sleppti því þess vegna. Einnig varð ferningurinn of stór svo seinasta umferðin hjá mér voru fastapinnar en ekki stuðlar.


17 January 2013

17/30Garn: Kambgarn
Litir: Gallablár (0942), Tómatrauður (0917), Hvítur (0051)
Nál: 3,5 mm

Þetta er hún Kata. Var búið að kvíða fyrir að hekla hana þar sem uppskriftin að hinum ferningnum sem ég heklaði eftir sömu konu var svo skelfilega skrifuð. En Kata var bara fín. Ég var ekki alveg að fatta seinustu rauðu umferðina en með því að rýna í myndina.

Ef e-r ákveður að hekla þennan ferning þá mæli ég sterklega með því að nota skemmtilegri liti. Ekki það að þetta séu ljótir litir, alls ekki, en þessum ferningi fer best að vera litríkur fyrir nær allann peninginn.

16 January 2013

16/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Vatnsblár (1216), Gallablár (0942)
Nál: 3,5 mm

Ég veit ekki alveg hvert ég var að fara með þessa litaröð hjá mér. Ferningurinn er í engu sérstöku uppáhaldi, en mér finnst miðjan mjög töff. Þurfti líka að minnka ferninginn því hann var alltof stór.

15/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Tómatrauður (0917), Gallablár (0942)
Nál: 3,5 mm

Þessi ferningur er næstum því alveg eins og Hearts All Around ferningurinn. Það er pínu munur á þeim en annars eru þeir eins. Þessi uppskrift er þó gerð árið 2004 en hin 2009. Ákvað það samt að gera þennan ferning og hafa mismunandi litasamsetningu en í hinum.


14/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Vatnsblár (1216), Gallablár (0942)
Nál: 3,5 mm

Þessi ferningur kom smekktilega á óvart. Það var auðvelt að hekla hann, uppskriftin er vel skrifuð og mér finnst hann bara frekar sætur.

Ég held að ferningurinn yrði jafnvel enn betri ef mar hætti að hekla eftir dökkbláu umferðina og hefði bara litla stjörnuferninga. Gæti orðið sætt teppi.

Fyrst að ég var búin að skipta um bláan lit einu sinni þá ákvað ég að gera það aftur. Skipti úr dökkbláum yfir í gallabláan. Breytingin er ekkert svakaleg, en þessi gallabláai er ótrúlega fallegur.13 January 2013

13/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Tómatrauður (0917), Vatnsblár (1216)
Nál: 3,5 mm

Ágætis ferningur. Ekki í neinu sérstöku uppáhaldi þó. Finnst hjörtun í ferningnum ekki njóta sín nógu vel, en þau eiga að vera fúttið í honum. Finnst þessir litir þó æðislegir saman.

Uppskriftin var frekar sérstök líka. Sem betur fer voru mikið af myndum því ég var ekki alltaf að fatta skriflegu leiðbeiningarnar. Mér leiðast uppskriftir sem hafa sínar eigin skammstafanir - ef svo má kalla - í þessar uppskrift var HH sem þýddi 5 stuðlar, LCC sem þýddi 3 stuðlar. Og til að vita hvað þessar skammstafanir þýddu varð mar að fara efst í skjalið.  

Eins og ég hef áður sagt þá leiðist mér þegar ég þarf að flakka upp og niður uppskriftina til að geta skilið hana.


12/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Tómatrauður (0917), Vatnsblár (1216)
Nál: 3,5 mm

Þessi ferningur er mjög sætur en það er heilmikið púsl í kringum hann svo það væri þvílík vinna að gera heilt teppi. Byrjað er á að hekla fjögur hjörtu, því næst er miðjan hekluð og hjörtun fest við og að lokum er heklað utan um hjörtun og úr verður ferningur.

Ég er hætt að stressa mig á því að halda tímaáætluninni á þessu verkefni mínu. Þessi ferningur var tilbúinn í gær en ég bara nennti ekki að blogga. Þetta er merkilega tímafrekt að hekla heilan ferning, móta hann, mynda og blogga. Þegar það er orðið að kvöð og farið að valda stressi þá er þetta ekki mikið skemmtilegt en hekl á alltaf að vera skemmtilegt.


11 January 2013

11/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Dökkblár (0968), Vatnsblár (1216)
Nál: 3,5 mm

Ég er ástfangin upp fyrir haus af þessum ferningi. Mér finnst alveg frábært að hafa lært að gera þessa snúnu kapla. Grunar að ég eigi eftir að gera fleiri svona.

Ferningurinn var ekki nógu stór samkvæmt uppskriftinni svo ég bætti við þriðja hringnum af snúnu köplunum. Til þess að gera það varð ég að skálda og því fór ég í raun bara eftir uppskriftinni fram að vatnsbláa hringnum. Ég studdist þó við uppskriftina sjálfa til að gera þennan viðauka.

Þetta er einnig fyrsti ferningurinn með nýja bláa litnum. Ég er ekki frá því að hann passi bara betur við en hinn. Enda er þetta mjög fallegur blár litur.


10/30
Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Blágrænn (1218), Dökkblár (0968)
Nál: 3,5 mm

Mér finnst þetta frekar sætur ferningur. Uppáhalds við hann eru litlu hnútarnir. Ég breytti seinustu tveim umferðum. Fannst ferningurinn svo kúptur á milli horna - sem sé hornin voru svo löng en hliðarnar ekki - að það var ómögulegt að móta hann.

Bakgrunnurinn á myndunum hefur breyst. Ástæðan fyrir því er að nýr sófi var keyptur inn á heimilið. Gamli sófinn var mikið notaður í myndatökur hjá mér en nýji sófinn er of dökkur. Mér finnst þetta voða erfitt - sem sé að myndirnar séu ekki allar eins - og kærastinn minn segir að ég sé sorgleg c",)


9/30
Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Tómatrauður (0917), Blágrænn (1218)
Nál: 3,5 mm

Það er 10. janúar en bara 9 ferningurinn. Það merkir ekkert annað en ég er eftir á. Þetta er nefninlega merkilega tímafrekt og ég var bara svo þreytt í gær að ég nennti ekki. Aðdáun mín til þeirra heklara sem hafa tekið að sér að hekla ferning á dag í heilt ár eykst og eykst.

Þessi ferningur er mjög sætur og létt að hekla hann. Ég fíla svona ferninga sem uppskriftin meikar bara sense og það er lauflétt að hekla.

Mæli með þessum ferningi.

(Haldiði að ég hafi ekki gleymt að ýta á publish. Því birtist þetta ekki fyrr en í dag þó þetta hafi verið skrifað í gær. Svona er það þegar mar er þreyttur.)


08 January 2013

8/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Blágrænn (1218)
Nál: 3,5 mm

Ég varð fyrir ótrúlegum vonbrigðum með þennan ferning. Það var svo erfitt að lesa uppskriftina að ég var við að gefast upp en náði þó að fikra mig áfram þar til ég kom að þriðju seinustu umferð. Þá varð uppskriftin með öllu óskiljanleg og ég varð mjög pirruð. 

Fór að skoða á Ravelry og sá að það eru næstum 300 heklarar búnar að hekla þennan ferning. Fannst það frekar skrítið að ég ætti svona svakalega erfitt með þetta og væri nær ein um það. En þegar ég fór að skoða umsagnir annarra sá ég að fleiri höfðu lent í sömu vandræðum og ég. Svo margir höfðu gefist upp á þessum ferning að annar heklari tók að sér að endurskrifa uppskriftina. Með þeirri uppskrift var frekar ljúft að klára ferninginn. 

Ferningurinn er mjög fallegur eftir að ég er búin að móta hann. En áður en hann var mótaður þá var hann alger krumpa. Þótt hann sé sætur þá finnst mér ekki þess virði að hekla hann aftur, svo slæm var þessi heklreynsla c",)


07 January 2013

7/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Dökkblár (0968)
Nál: 3,5 mm

Enn einn ferningurinn dottinn af nálinni og fyrsta vikan í þessu verkefni mínu búin. Er voða þreytt í kvöld og hef lítið að segja um þennan ferning. 

Fannst örlítið erfitt að átta mig á fyrstu umferðum uppskriftarinnar en um leið og ég fattaði þá var það eins og að hjóla. Er það ekki oftast þannig?

Hendi inn einni mynd af bakhliðinni á honum. Í þriðju hverri umferð er heklað ofan í umferðina þar á undan svo baklhliðin er ólík þeirri fremri.


Svo er komin örlítið bobb í bátinn í þessu verkefni mínu. Ég er að verða búin með blágræna litinn og er barasta ekki að finna meir. Er búin að fara í nokkrar búðir og orðið á götunni segir að það sé skortur á þessum lit (meðal annars) hjá Ístex. Bölvað vesen það.06 January 2013

6/30Garn: Kambgarn
Litir: Tómatrauður (0917), Dökkblár (0968), Hvítur (0051), Blágrænn (1218)
Nál: 3,5 mm

Æðislegur ferningur í alla staði. Mér finnst hann alveg skelfilega flottur og það var gaman að hekla hann. Reikna með að hekla hann aftur seinna.

Þetta er í raun hinn klassíski ömmuferningur sem er búið að "pimpa upp" með þreföldum frambrugðnum stuðlum. Alls ekki erfiður í framkvæmd.


05 January 2013

5/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Tómatrauður (0917), Dökkblár (0968), Blágrænn (1218)
Nál: 3,5 mm

Mjög einfaldur og fínn ferningur. Verð að játa að ég man ekki lengur afhverju ég valdi hann í verkefnið mitt. Hann er ekki ljótur en hann er ekkert svakalega spennandi. 

04 January 2013

4/30Garn: Kambgarn
Litir: Tómatrauður (0917), Hvítur (0051), Dökkblár (0968)
Nál: 3,5

Fínasti ferningur. Finnst virkilega skemmtilegt að hafa hann svona tvílitann í miðjunni. En uppskriftinn bíður upp á að hafa miðjuna einlita og tvílita. Uppskriftin var ágæt. Þurfti að hugsa aðeins til að skilja sumt en á meðan ég fylgdi bara uppskriftinni þá varð þetta allt ljóst. 

Það var þó einn stór galli á uppskriftinni að mínu mati. Uppskriftin er að einlitum ferning en til þess að fá tvílitu leiðbeiningarnar þurfti ég alltaf að fara neðst í skjalið og lesa þar setningu og fara svo upp aftur til að halda áfram að lesa umferðina. Hefði mátt hafa þessa setningu fyrir neðan umferðina eða hreinlega hafa tvær uppskriftir.

Myndi segja að þessi ferningur sé tiltölulega auðveldur. Hringurinn í miðjunni er flóknastur en þar eru frambrugðnir stuðlar og svokallað tvíbandahekl - en þá ertu með tvo spotta, skiptist á að hekla úr öðrum og heklar yfir hinn.


03 January 2013

3/30Garn: Kambgarn
Litir: Hvítur (0051), Dökkblár (0968), Blágrænn (1218)
Nál: 3,5 mm

Ég er mjög ánægð með þennan ferning. Hann er auðveldur í framkvæmd og fallegur hvort sem hann er einlitur eða marglitur. Ég ákvað að herma eftir litaröðinni hjá Maryfairy á Ravelry og sé ekki eftir því.


Hef bara eitt út á uppskriftina að setja. Skil ekki alveg afhverju mar á að byrja hverja umferð á að færa sig yfir í næsta horn með keðjulykkjum. Ég byrjaði því bara hverja umferð þar sem ég tengdi/lokaði síðustu umferð.

Mæli hiklaust með þessum ferning.
02 January 2013

2/30Garn: Kambgarn
Litir: Tómatrauður (0917), Hvítur (0051), Dökkblár (0968)
Nál: 3,5 mm

Virkilega skemmtilegur ferningur að hekla og vel skrifuð uppskrift. Lenti ekki í neinu erfiðleikum með neitt - og breytti engu sem er sjaldgjæft þegar kemur að mér.

Ferningurinn er mjög einfaldur og á skalanum 1 til 5 (auðvelt til erfitt) myndi ég gefa honum 1 fyrir vana og 2 fyrir byrjendur þar sem það er mikið af tvö- og þreföldum stuðulum. Mæli hiklaust með honum.


01 January 2013

1/30Garn: Kambgarn 

Litir: Tómatrauður (0917), Blágrænn (1218), Hvítur (0051)
Nál: 3,5 mm

Alls ekki flókinn ferningur í framkvæmd. Á skalanum 1 til 5 myndi ég segja að erfiðleikastigið væri 1. 

Leiddist þó hvað ferningurinn fór allur að krumpast í seinustu umferðunum. Ég fækkaði stuðlum en samt krumpaðist hann frekar mikið. Ég fíla ekki ferninga sem ég verð að títuprjóna og móta til þess að geta notað þá. 


En annars er þetta fínasti ferningur. Tilvalinn til að hafa einlitann og gera nokkra í mismunandi litum og setja saman í teppi.