25 March 2011

Námskeið? Kannski. Måske. Maybe.

Ég hef verið að velta því fyrir mér í kollinum hvort það sé áhugi fyrir því að komast á hekl námskeið. Og ef svo er - hvort ég eigi að spreyta mig á því að halda námskeið í hekli.

Ástæðurnar fyrir því að mig langar að gera þetta eru ýmsar og meðal annars:
  • Ég auðvitað elska hekl og verð alltaf jafn hamingjusöm þegar ég sé að fleiri íslenskar konur eru farnar að hekla og deila myndunum sínum á netinu.
  • Ég þekki örfáa heklara sjálf og því væri frekar ozom að hitta fleiri sem deila ástríðunni með mér. Ein vinkona mín kom því svo vel að orði að hún sónaði út þegar ég byrjaði að tala um hekl, alveg eins og þegar kærastinn hennar byrjar að tala um fótbolta.
  • Neyðin kennir naktri konu að hekla. Til að vera algerlega hreinskilin þá vantar mig líka aukatekjur inn á heimilið.

Anywho. Til að gera langa ræðu styttri. Ef þið hafið áhuga eða hugmyndir þá myndi ég vera ótrúlega glöð ef þið gætuð viðrað þær við mig. Annað hvort hér í kommentunum eða sent mér tölvupóst á handodi.heklarinn@gmail.com

21 March 2011

♥ Ást áSt ásT ♥

Ég verð ótrúlega oft ástfangin þegar kemur að hekli. Og í dag féll ég sko kylliflöt...algerlega haus yfir hælum ástfangin!

Var að leita mér að hugmyndum fyrir heklaða eyrnalokka og fann
mccordworks
Skoðið flickr hennar og ef þið eruð e-ð eins og ég þá skiljið þið afhverju ég er að missa mig!Ég er bara ekki að komast yfir það hvað þetta er allt flott hjá henni. Algert system overload!

18 March 2011

Keypt í USA

Jæja þá er mín komin heim eftir alveg hreint ótrúlega ferð til Bandaríkjanna. Skemmti mér alveg konunglega.
Þó svo að ferðin hafi ekki verið verslunarferð varð ég að kíkja aðeins í búðir. Ég verslaði ekki mikið EN ég hefði getað verslað svo miklu miklu meira ef buddan hefði leyft það. Og auðvitað var aðeins keypt af hekltengdum vörum c",)

Mig hefur lengi langað til að prófa að lita sjálf garn með Kool-Aid svo ég keypti nokkra pakka. Fann svo góða bloggfærslu um svoleiðis. Það er hinsvegar spurning hvort ég komi mér í það áður en erfinginn drekkur allar byrgðirnar upp.
Keypti líka svona stykki til að gera eyrnalokka. Hefur lengi langað til að prófa að gera e-ð töff skart handa sjálfri mér.

Ég keypti mér 2 poka af tölum. Er ekki búin að ákveða hvað skal gera við þær...en pokinn kostaði bara um 200 kr svo ég hreinlega varð.

Keypti líka 3 heklunálar. Bæði afþví að mig vantaði eina risa stóra og líka því þær eru svo töff á litinn.

Keypti mér 5 dokkur af garni...spurning hvort þráður sé betra orð yfir svona fínt garn. Keypti eina af öllum litunum sem voru til, vildi óska að það hefðu verið til fleiri litir því þetta var svooo ódýrt. Ein svona dokka kostaði 250 kr. hérna heima eru þá á um og yfir 1000 kall.

Ég varð reyndar fyrir soldnum vonbrigðum með verðið á fínna garni. Hélt ég gæti keypt mér e-ð flott ullargarn á góðu verði en það var bara alls ekkert ódýrara en hérna heima. Ef e-ð er þá var t.d. Debbie Bliss garnið sem er selt í Storkinum dýrara þarna úti en hér heima.

Ég keypti mér þetta blað úti. Var búin að sjá það hérna heima í Hagkaup og varð ástfangin af þessari rauðhettu-kápu-skikkju. Sá svo blaðið úti og það var auðvitað miklu ódýrara. Mér til mikillar ánægju þá eru margar fleiri flottar uppskriftir í blaðinu en þessi eina.
Spurning hvenær ég mun svo hefjast handa við verkefnið. Ég er nefninlega soldið löt á þann máta að ég nenni ekki að þurfa að hafa of mikið fyrir því sem ég er að hekla.

Það voru til ALLTOF margar bækur um hekl þarna úti. Og bara ALLA handavinnu. Ég sat alveg heillengi í Barnes & Nobles og næstum grét yfir að þurfa að velja á milli allra bókanna sem mig langaði í. En að lokum endaði ég með þessar 3.
Fyrstu bókina Pop Goes Crochet var ég bara að sjá í fyrsta sinn...en ég varð strax ástfangin. Þetta eru 36 hannanir þar sem poppstjörnur eða aðrar celebs eru fyrirmyndirnar. Venjulega kaupi ég mér ekki bækur sem eru bara með hönnunum þar sem ég finn svo sjaldan bækur þar sem mér finnst flottar fleiri en ein eða tvær hannannir - og því eiginlega ekki þess virði að kaupa heila bók. En í þessari voru flestar sem ég var að fíla.

Það var meir að segja ein hönnun sem heitir Björk.

Interlocking Crochet var á Amazon óskalistanum mínum. Þetta er e-ð sem mig langar alveg rosalega að gera. Veit ekki alveg hvað á að kalla þetta en þetta er í raun tvöfalt hekl. Það er sem sé öðrvísi að framan en aftan á. Finnst þetta ekkert smá spennandi.


Crochet Master Class er ótrúlega svöl og spennandi bók og var líka á Amazon óskalistanum mínum. Þetta er bók fyrir "alvöru" heklara...alla vegana ekki byrjendur. Þetta er kynning á gömlum-næstum gleymdun-soldið öðrvísi-heklaðferðum eða tegundum. Svo er 1 verkefni sem fylgir hverju hekli. Á pottþétt eftir að ræða þessa bók e-ð meira.

09 March 2011

Hvað er á nálinni?

Eins og ég get verið stíf og skipulögð með suma hluti þá get ég verið algerlegar óskipulögð og í lausu lofti með aðra hluti. Heklið mitt er þannig stundum c",)

Hún Halldóra hjá Prjónaperlum hafði samband við mig á Ravelry og bauð mér að vera með í svokölluðu Yarn-Along. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtileg hugmynd og tók því fagnandi að vera að vera með.

Hugmyndin er sem sé sú að taka mynd af því sem er á nálinni eða prjónunum í dag...og líka bók sem þú ert að lesa...og smella myndinni á bloggið sitt, Ravelry, Flickr, Facebook eða bara hvar sem hægt er að deila myndunum og ætlar hún Halldóra að safna hlekkjunum saman á bloggið sitt eða
hér.

Öllum er að sjálfsögðu velkomið að vera memm svo endilega skellið inn myndunum ykkar. Það verður skemmtilegt að sjá hvað allir eru að vinna í!

Mig langaði rosalega að taka fína og fallega mynd af öllu uppstilltu og hafa þetta soldið töff. Eeen ég er á smá hraðferð því ég er að fara af stað upp á flugvöll eftir tæpan klukkutíma. Svo svona er aðstaðan hjá mér akkurat núna.

Ég fæ alltof mikið af hugmyndum og hreinlega fæ mig ekki alltaf til að klára eitt áður en ég byrja á næsta verkefni...eða bók...og því er oft margt í gangi á sama tíma.

#1 - Krukkur
Er að hekla krukkur með netamynstri. Veit ekkert hvort þetta kemur flott út í lokin EN hugmyndin er að hafa sett þar sem netamynstrið er misstórt.

#2 - Herðatré
Er búin að gera mér ferð í Góða Hirðinn og kaupa mér gamaldags herðatré á skít og inge-ting og hekla utan um þau með garni sem ég á í skúffunum. Ætla að gera 6 í setti og er hálfnuð með að hekla 6. renninginn og búin að festa 3 á trén sjálf. Kem með meira um þetta þegar ég er búin.

#3 - Sjalið Þórunn
Risa sjalið mitt sem ég fékk æði fyrir og heklaði á um tveim vikum. Svo vantar mig bara aaaaðeins meira garn til þess að geta klárað það. Mér til mikils ama eru Rúmfó hættir að selja garnið sem ég var að nota í þetta (svarta litinn) og varð ég að plögga mér öðru garni. Við Rúmfó erum ekki vinir í augnablikinu.
Sjalið heitir Þórunn því ein kunningjakona mín er alltaf með svo geggjað risastórt sjal og kom hugmyndin frá henni - hún heitir einmitt Þórunn.

# 4 - Bækur
Eins og með hekl þá kann ég ekki að lesa eina bók í einu. Er alltaf með 2 í gangi og stundum alveg upp í 4...sem er auðvitað bara rugl. En Ástin á tímum kólerunnar er klassík sem mig hefur lengi langað til að lesa því ég er mjög hrifin af þessum rithöfundi. Þessi bók er í handfarangrinum og verður vonandi kláruð í fluginu. Facing Codependence er sjálfshjálparbók frá snillinginum henni Piu Mellody les einn kafla í einu og melti hann áður en byrjað er á næsta.

Jæja þá er þessi upptalning komin. Þá ætti ég að fara að standa upp og gera mig ferðbúna þar sem farið mitt upp á flugvöll er væntanlegt eftir 40 mín.

Ég er að fara í vikuferð til USA á ráðstefnu og að heimsækja vini og fjölskyldu. Hef aldrei farið til USA áður og er alveg frekar spennt...en samt er merkilega pollróleg. Þetta er enn svo óraunverulegt c",)

Heimaland ömmuferningsins hér kem ég!