27 June 2010

Hægt og rólega hefst það...

Það eru erfiðir og krefjandi tímar í lífi heklarans með athyglisbrestinn aka mér. Ég er enn að vinna í teppinu umtalaða og er þetta alveg að koma hjá mér. Ég ákvað að sauma dúllurnar saman sem ég hef aldrei gert áður. Það er tímafrekara en mun fallegra finnst mér...í þessu verki. Teppið er samt rosalega fallegt og ég er mjög sátt með afraksturinn só far.

Ég er samt sem áður...eins og ég nefndi fyrr...með athyglisbrest. Ég á svoooo erfitt með að gera bara EINN hlut í einu. Og það er alveg að fara með mig að geta ekki bara hent teppinu frá mér og byrjað á því nýjasta sem rúllar í gegnum kollinn á mér. Athyglisbresturinn er einmitt ástæðan fyrir því að ég er með heilan kassa af ókláruðum verkum.

En ég stalst þó til að taka mér 2ja daga pásu frá teppinu og heklaði tvo trefla. Elínborg hjá
Garn.is lét mig hafa tvær dokkur af akríl garni sem þær eru að byrja að selja og bað mig um að prófa hvernig væri að hekla úr því. Ég sem er alltaf jafn skotin í akríl - ólíkt mörgum öðrum - greip dokkurnar með þökkum. Það var mjög þægilegt að hekla úr þessu. Garnið er mjúkt og gott. Ég notaði nál nr. 4,5 og ákvað að prófa tvö munstur sem ég hafði rekið augun í. Báðar dokkurnar voru sprengdar.

Ég er mjög skotin í hvítu dokkunni með fjólubláu og bleiku í. Það er ljúft fyrir augað og sætt finnst mér. Ég féll alveg fyrir mynstrinu sem ég notaði í þennan trefil. Það er einstaklega einfalt en það er bara e-ð við það sem ég kann svo vel við. Ætla pottþétt að nota það í annað verk. Blómin eru svo gerð úr afgangsgarni sem ég átti hérna heima. Finnst þau passa vel við án þess að vera of væmin og trefillinn væri ansi tómlegur án þeirra.

Þessi trefill er einstaklega auðveldur og ég ímynda mér að þetta gæti verið skemmtilegt verk fyrir byrjanda að æfa sig á. Garnið finnst mér fínt...en ég er ekki alveg að kaupa þennan bláa lit. Kannski finnst mér þetta bara of mikið munstur...gult, hvítt með flekkjum og blátt. Mér finnst það alls ekki ljótt...en æj ekki minn stíll bara.

Stór ástæða fyrir því afhverju ég er svo æst í að byrja á e-u nýju verki er nýja garnið mitt. Ég gerði enn einn skiptidílinn við Sofiu frænku í Köben...ég sendi henni Bjarnfreðarson á DVD og ég fékk 10 dokkur af töff garni til baka.

Það verður að læða því með þessari mynd að þetta er ansi algeng sjón á mínu heimili. Ég dreifi garni um allt og herra Mikael dreifir Lego um allt.

4 dokkur eru einlitar og eru allar af sama litnum...það er fyrsta dokkan lengst til vinstri. Hinar 6 dokkurnar eru allar sprengdar og eru þær hver annarri flottari.
Mér finnst þær allar æðislegar. En ég verð að játa að ég er mest skotin í þessari græn-brún sprendu.

Beggubörn & Hekl

Við Freyr skelltum okkur í heimsókn til Beggu systur hans í dag. Hún var að eignast nýjan erfingja síðast liðinn þriðjudag. Ég var auðvitað búin að gera teppi handa prinsinum svo við mættum þangað færandi hendi.

Fyrsta myndin er af fröken Daníelu Dögg sem verður 8 ára í ágúst. Henni finnst heklið mitt mjög spennandi og vill ólm að ég kenni henni. Hún fékk að taka með sér smá renning heim úr seinustu heimsókn frá okkur og æfði sig að gera fastapinna. Hún var ekki alveg nógu sátt með útkomuna hjá sér og bað mig um að rekja þetta bara upp hjá sér. Ég er ekki alveg nógu klár á því hvernig á að kenna börnum að hekla. En ég fann áhugaverða grein á netinu sem ég ætla að lesa. Og vonandi er Daníela til í að gefa mér annað tækifæri á að kenna sér.

Guðmundi Óskari bróður hennar fannst þetta mjög spennandi líka. Ætli hann verði næsta fórnarlambið mitt...eða ætli áhugi hans á garni rjátlist af honum með aldrinum?

Og hér er svo stolta stóra systirin með nýja bróður Guðjóni Orra. Ég fékk að vefja hann í teppið og smella af honum nokkrum myndum.


Ég var ekki viss hvort teppið væri nægilega stórt...en hann rúmast vel í því enn sem komið er.

Algert krútt hann litli sem svaf svo vært nær allan tímann sem við vorum í heimsókn.

Þá er bara eina systkinið sem á eftir að fá teppi hún Daníela. Hver veit nema ég skelli mér í það við tækifæri. Ég fæ alltof sjaldan að gera stelputeppi - eiginlega bara aldrei - sem er eiginlega sorglegt því ég ELSKA bleikt.

14 June 2010

Hitt...en aðallega þetta

Ég var að taka til í garninu mínu og fann mig svona knúna til að taka myndir og blogga um það...aðallega vegna þess að ég hef ekkert bloggað lengi.

Ég skrapp í IKEA seinustu helgi og keypti mér svona kassa til að skella öllu garninu mínu í. Hingað til hef ég ekkert verið neitt sérlega skipulögð og er oft á tíðum mesta draslið á heimilinu allt garnið mitt um allar trissur.

Ég safnaði öllu garn-kyns sem ég á úr öllum hornum, skápum, pokum - og flokkaði í tvo kassa.
Í einum kassanum er bara garn sem ég á og bíður þess að vera notað.
Í hinum eru öll verkefnin sem ég hef byrjað á og á eftir að klára...eða sem ég ætla að rekja upp en hef bara ekki nennt því. Einn fylgifiskur þess að vera með athyglisbrest c",)

Í þeim kassa eru meðal annars:
- Nokkrar tegundir af ferningum.
- Þríhyrningar, blóm, snjókorn sem aldrei varð neitt úr.
- Hjörtu sem áttu að vera jólaskraut.
- Sokkar og misheppnaður vettlingur.
- Treflar, sjöl, hettur og álfaskór.
- Renningar sem ég ætlaði að hekl-graffa með
- Misheppnaðar prjónaðar peysur.

Það er líka búið að vera smá panik í gangi.
Núna í lok maí var hringt í mig frá Bjarkarhóli - sem gefa út Prjónablaðið Björk og reka Garn.is síðuna - ein konan hafði rekist á bloggið mitt og þau vildu endilega fá mig til að hekla í blaðið þeirra því ég væri svo hugmyndarík.

Eftir að hamingju-monnt-spenningurinn fór að rjátla af mér og ég var komin með allt garnið í fangið - sem ég valdi mér btw sjálf -þá fór af stað panikið. Hvað í ósköpunum átti ég að hekla?!

Ég gerði alveg fullt fullt af prufum og var með fullt af hugmyndum...en mér fannst bara ekkert nógu flott.Loksins loksins loksins komst ég að niðurstöðu og er alveg mega sátt.
Það er búið að ganga frekar vel að hekla þetta - þrátt fyrir að minn dyggi aðstoðarkisi Guðmunda leggi sig alla fram við að vera memm í fjörinu.Planið var að teppið mitt myndi vera í blaðinu sem fer að koma út núna. Ég tel mig vera fljóta að hekla en ég náði þessu ekki á þessum 10 dögum síðan ég ákvað hvað ég ætlaði að gera. Og samt setti ég næstum allt lífið á pásu um helgina og heklaði þar til ég gat varla hreyft hendurnar.

En þetta eru um 110 dúllur. Það eru að minnsta kosti 900 spottar sem á eftir að ganga frá. Ég er ekki enn búin að ákveða hvernig ég ætla að raða þessu upp, hvort og hvernig ég hekla það sama eða sauma það, og hvernig ég ætla að hekla í kringum það.

Þar sem blaðið kaupir útgáfuréttinn af teppinu veit ég ekki hve mikið af því ég má setja á bloggið mitt. En bara svo Jóka sjái e-ð smá af því sem ég er að gera þá lítur þetta merka undur sem verður teppið mitt svona út í dag.


Lokaniðurstaðan kemur svo í haustblaði Bjarkar.