24 April 2010

Teppið sem aldrei varð úr...

Eins og þeir sem þekkja mig vita er ég mjög dugleg að byrja á verkefnum. En ég er oft mjög fljót að fá leið á þeim líka. Oftast legg ég verkefnið til hliðar og geymi það þar til ég nenni að klára það. En oft þá rek ég allt saman bara upp.

Og þannig var það með þetta teppi mitt.

Ég ætlaði að búa til fallegt sófateppi handa Gyðu vinkonu minni sem var að verða 25 ára. Ég fann uppskrift í einni bók sem ég á eftir snillingin hana Jan Eaton sem heitir 200 ripple stitch patterns.


Því næst skellti ég mér í Europris og keypti fullt af garni þar. Þeir eru nefninlega með gott úrval af ódýru garni sem er fínt að nota í rúmteppi og sófateppi.

Og svo var byrjað að hekla.


Ég var alveg að fíla teppið í botn. Mér fannst bylgjurnar æði. Mér fannst litirnir æði. En garnið dugði skemur en ég reiknaði með. Ég hefði þurft að kaupa 3x meira en ég var þegar búin að kaupa og hefði heildarkostnaðurinn þá verið komin yfir 20 þúsund. Mér þykir óendanlega vænt um hana Gyðu mína en 20 þúsund var bara aðeins meira en ég hafði efni á að splæsa í þetta.


Þannig að ég hætti við þetta verkefni. Rakti teppið upp og notaði part af garninu í barnateppi sem var með sama mynstri.

Á þessum tíma vorum við nýbúin að fá hana Guðmundu kisuna okkar og skemmti hún sér konunglega við gerð þessa teppis. Verð að láta þær myndir fylgja með c",)


21 April 2010

Spor - Tvöfaldur stuðull (tvöf st)


1. Byrjið á að gera upphafslykkjur, sláið garninu yfir nálina tvisvar (garnið yfir) og stingið nálinni í fimmtu loftlykkju frá nálinni.


2. Dragið garnið í gegnum lykkjuna, þá eru fjórar lykkjur á nálinni. Garnið yfir og dragið í gegn um fyrstu tvær lykkjurnar, þá eru þrjár lykkjur á nálinni.


3. Garnið yfir aftur og dragið í gegn um fyrstu tvær lykkjurnar, þá eru tvær lykkjur á nálinni.


4. Garnið yfir aftur og dragið í gegn um lykkjurnar tvær sem eru á nálinni, þá er ein lykkja eftir á nálinni. Einn tvöfaldur stuðull hefur verið gerður.


5. Endurtakið út umferðina, heklið tvöfaldann stuðul í hverja lykkju. Í lok umferðarinnar eru heklaðar fjórar loftlykkjur til þess að snúa (um snúningslykkjur
sjá hér). Sleppið fyrstu lykkjunni, heklið tvöfaldann stuðul í aðra lykkju umferðarinnar og í hverja lykkju fyrri umferðar. Seinasta spor hverrar umferðar er svo heklað í efri snúningslykkju fyrri umferðar.

Ísl - Tvöfaldur stuðull (tvöf st)
US - Treble crochet (tr)
UK - Double treble
(dtr)
DK - Dobbelt stangmaske (Dblt stm)Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

Spor - Stuðull (st)


1. Byrjið á að gera upphafslykkjur, sláið garninu yfir nálina (garnið yfir) og stingið nálinni í fjórðu loftlykkju frá nálinni.


2. Dragið garnið í gegnum lykkjuna, þá eru þrjár lykkjur á nálinni. Garnið yfir og dragið í gegn um fyrstu tvær lykkjurnar, þá er tvær lykkjur á nálinni.


3. Garnið yfir og dragið í gegnum lykkjurnar tvær sem eru á nálinni, þá er ein lykkja eftir á nálinni. Einn stuðull hefur verið gerður. Endurtakið út umferðina, heklið stuðul í hverja lykkju. Í lok umferðarinnar eru heklaðar þrjár loftlykkjur til þess að snúa (um snúningslykkjur
sjá hér). Sleppið fyrstu lykkjunni, heklið stuðul í aðra lykkju umferðarinnar og í hverja lykkju fyrri umferðar. Seinasta spor hverrar umferðar er svo heklað í efstu snúningslykkju fyrri umferðar.

Ísl - Stuðull (st)
US - Double crochet (dc)
UK - Treble
(tr)
DK - Stang maske (stm)
Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

20 April 2010

Spor - Hálfur stuðull (hst)


1. Byrjið á að gera upphafslykkjur, sláið garninu yfir nálina (garnið yfir) og stingið nálinni í þriðju loftlykkju frá nálinni.2. Dragið garnið í gegnum lykkjuna, þá eru þrjár lykkjur á nálinni. Garnið yfir og dragið í gegn um allar þrjár lykkjurnar, þá er ein lykkja eftir á nálinni. Einn hálfur stuðull hefur verið heklaður.3. Endurtakið út umferðina, heklið hálfann stuðul í hverja lykkju. Í lok umferðarinnar eru heklaðar tvær loftlykkjur til þess að snúa (um snúningslykkjur
sjá hér). Sleppið fyrstu lykkjunni, heklið hálfann stuðul í aðra lykkju umferðarinnar og í hverja lykkju fyrri umferðar. Seinasta spor hverrar umferðar er svo heklað í efri snúningslykkju fyrri umferðar.
Ísl - Hálfur stuðull (hst)
US - Half double crochet (hdc)
UK - Half treble
(htr)
DK - Halv stang maske (hstm)
Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

Spor - Fastapinni (fp)


1. Byrjið á að gera upphafslykkjur og stingið nálinni inn í aðra loftlykkju frá nálinni. Sláið garninu yfir nálina (garnið yfir) og dragið það í gegnum fyrstu lykkjuna, þá eru tvær lykkjur á nálinni.
- Nálinni er alltaf stungið í lykkjuna að framan og kemur út að aftan (from front to back).2. Til þess að fullgera sporið, garnið yfir og dragið í gegn um báðar lykkjurnar á nálinni, þá er ein lykkja eftir á nálinni. Endurtakið þetta, heklið fastapinna í hverja loftlykkju út umferðina.


3. Í lok umferðarinnar, snúið, heklið eina loftlykkju til þess að snúa (munið að þessi lykkja telst ekki með sem spor - sjá meira hér). Stingið nálinni í fyrsta fastapinnann í byrjun umferðarinnar. Heklið fastapinna í hverja lykkju/spor fyrri umferðar, en passið ykkur á að hekla síðasta fastapinnann í hverri umferð ekki í snúningslykkju fyrri umferðar.

Ísl - Fastapinni/fastahekl (fp)
US - Single crochet (sc)
UK - Double crochet
(dc)
DK - Fast maske (fm)


Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

Spor - Keðjulykkja (kl)

Keðjulykkja er stysta sporið af öllum hekl sporum og er oftast notað til þess er að tengja saman hringi/umferðir, hekla saman búta/dúllur og færa nálina og garnið frá einum stað yfir á annann.
Stingið nálinni í þá lykkju sem um ræðir, farið í alla lykkjuna (allt V-ið), sláið garninu upp á nálina og dragið í gegn um báðar lykkjurnar, þá sem þið voruð að stinga í og þá sem er uppá nálinni.
Þá er ein lykkja eftir á nálinni og ein keðjulykkja hefur verið gerð.
- Þegar verið er að tengja saman umferðir í verkum þar sem heklað er í hringi er frjálst að velja hvort farið er í alla lykkjuna eða bara hálfa. Ég hugsa að það sé algengara að aðeins sé stungið í hálfa þótt ég sjálf stingi alltaf í báðar. - Þegar er verið að hekla saman búta/dúllur er líka hægt að fara í bæði alla lykkjuna eða bara hálfa, það fer algerlega hvað þú ert að gera og hvað hverjum finnst fallegast.


Ísl - Keðjulykkja (kl)
US - Slip stitch (sl st)
UK - Slip stitch
(sl st eða ss)
DK - Kædemaske (km)Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

19 April 2010

Hvernig á að byrja - Snúnings- og byrjunarlykkjur

Þegar heklað er fram og til baka eða í hringi þarf að hekla vissan fjölda af auka loftlykkjum í byrjun hverrar umferðar. Þessar auka loftlykkjur eru til þess gerðar að fá nálina upp í rétta hæð fyrir það spor sem þú ert að fara að hekla. Þegar heklað er fram og til baka eru þessar auka loftlykkjur kallaðar snúningslykkjur, en þegar heklað er í hringi eru þær kallaðar byrjunarlykkjur.

Snúnings- eða byrjunarlykkjan er oftast talin sem fyrsta sporið í þeirri umferð, nema þegar er verið að gera fastapinna þá er þessi eina lykkja hunsuð.
Dæmi: 3 ll (teljist sem 1 st) í byrjun umferðar þýðir að snúnings- eða byrjunarlykkjurnar eru 3 loftlykkjur sem jafngilda einum stuðli.

Stundum eru lykkjurnar fleiri en þörf er á, þegar þannig er eru lykkjurnar taldar sem eitt spor og svo auka lykkjur.
Dæmi: 5 ll (teljist sem 1 st, 2 ll) þýðir að fyrstu 3 loftlykkjur teljast sem einn stuðull og hinar 2 loftlykkjur eru hluti af mynstrinu sem verið er að hekla.

Í lok hverrar umferðar er seinasta sporið lang oftast heklað í snúnings- eða byrjunarlykkju fyrri umferðar. Lokasporið er annað hvort heklað í efstu loftlykkju fyrri umferðar eða þá loftlykkju sem tekin er fram.
Dæmi: 1 st í 3. af 5 ll þýðir að seinasta sporið er stuðull og er hann heklaður í 3. snúnings- eða byrjunarloftlykkju af 5.

Hvað þarf margar loftlykkjur fyrir hvaða spor:
(sjá mynd)

Fastapinni (fp) - 1 loftlykkja (ll)
Hálfur stuðull (hst) - 2 loftlykkjur (ll)
Stuðull (st) - 3 loftlykkjur (ll)
Tvöfaldur stuðull (tvfp) - 4 loftlykkjur (ll)


Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

Hvernig á að byrja - Að gera upphafslykkjur og loftlykkjur (ll)

Þegar talað er um upphafslykkjur er átt við þær loftlykkjur sem fitjaðar eru upp í upphafi hvers verks. Að gera upphafslykkjur er sambærilegt því að fitja upp lykkjur á prjón þegar prjónað er. Það er mjög mikilvægt að vera viss um að hafa gert réttann loftlykkju fjölda fyrir það mynstur sem þú ert að fara að hekla. Þú getur talið loftlykkjurnar bæði á réttunni og röngunni. Þegar talið er á réttunni telur þú hverja V-laga lykkju sem eina loftlykkju. Þegar talið er á röngunni telurðu litlu sporin sem eru aftan á lykkjunum.
- Lykkjan sem er á nálinni er ekki talin með hvort sem talið er á réttunni eða röngunni.
Þegar þú byrjar svo að hekla fyrstu umferðina í loftlykkjurnar (oftast kölluð upphafsumferð eða foundation round), stingur þú nálinni annað hvort í hálfa lykkjunnar eða alla lykkjuna.
- Loflykkja er eins og V í laginu, þegar heklað er í hálfa lykkjuna er nálinni bara stungið í gegn um aðra hliðina á V-inu en þegar öll lykkjan er hekluð er nálinni stungið undir báðar hliðar á V-inu.


1. Haldið á nálinni, með fyrstu lykkjunni á, í hægri hönd og garninu í þeirri vinstri. Vefjið garninu um nálina, dragið garnið með króknum í gegn um lykkjuna sem er á nálinni til þess að búa til nýja lykkju og þá eruð þið komin með fyrstu loftlykkjuna.
- Eins og þið sjáið á myndinni þá haldið þið í styttri enda garnsins með þumalfingri og vísifingri vinstri handar, þegar þið eruð komin með nokkrar loftlykkjur munið þið halda í þær með þessum tveim fingrum.


2. Endurtakið þetta spor, að draga lykkju í gegnum lykkjuna sem er á nálinni, þar til þið eruð komin með réttan fjölda af loftlykkjum. Færið þumalfingur og vísifingur sem halda í loftlykkjurnar ofar og ofar reglulega til þess að halda spennunni á garninu stöðugu.
- Svo lykkjurnar verði ekki misþéttar, lausar og fastar til skiptist.
Þegar þið byrjið svo að hekla í loftlykkjurnar stingið þið nálinni annað hvort í hálfa lykkjunnar (heklið verður lausara) eða alla lykkjuna (heklið verður þéttara), eftir því hvað ykkur finnst betra.
- Ég sting alltaf í alla lykkjuna, einfaldlega vegna þess að ég er vön því - ég hekla líka mjög fast...eða þétt. Í sumum uppskriftum er tekið fram að það eigi að hekla í annað hvort fremri hluta loftlykkjunnar eða aftari.
- Á þessari mynd er sýnt hvernig er heklað í aftari hluta loftlykkju.


Ísl - Upphafslykkjur
US/UK - Foundation chain

Ísl - Loftlykkjur (ll)
US/UK - Chain (ch)


Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

Hvernig á að byrja - Að búa til fyrstu lykkjuna


1. Snúið upp á garnið í lykkju eins og sýnt er á myndinni, stingið nálinni í gegnum lykkjuna, náið garninu með króknum á nálinni og togið í gegn til þess að búa til lykkju upp á nálinni.
- Endinn á þessari mynd er frekar stuttur, passið að hafa endann nógu langann til að hægt sé að hanga frá honum.2. Togið gætilega í endann og þéttið lykkjuna um nálina, þá er fyrsta lykkjan tilbúin.


Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

Hvernig á að byrja - Að halda á nálinni og garninu


1. Algengasta aðferðin til að halda á heklunálinni er að halda á henni eins og hún sé penni. Fingurgómar þumals og vísifingurs eru yfir flata hluta nálarinnar.2. Önnur aðferð til að halda á nálinni er að halda utan um flata hluta nálarinnar með þumalfingri og vísifingri eins og haldið er á hníf.
- Ég held sjálf á nálinni svipað og á þessari mynd. Ég er reyndar með þumalfingur og löngutöng á flata hluta nálarinnar og hef vísifingur alveg við krókinn á nálinni. Það bregst ekki að ég fæ alltaf komment á það hve vitlaust ég held á nálinni.


3. Til þess að stjórna flæði garnsins á meðan er heklað er garnið haft yfir vísifingri og lauslega snúið um litlafingur vinstri handar.
- Haldið er eins á garninu og þegar er prjónað. Ég sjálf vef ekki garninu um litla fingurinn, heldur held ég um bandið með bæði litla fingri og baugfingri.


Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

Á nálinni #1

Um þessar mundir er ég að hekla teppi handa systir kærasta míns en hún á von á litlum prins í júní. Venjulega væri eitt barnateppi ekki neitt vandamál en í þetta sinn langaði mig að prófa e-ð nýtt og eftir að hafa séð mynd á Ravelry af ótrúlega flottu sjali sem er heklað úr 3hyrningum ákvað ég að gera teppi úr 3hyrningum en ekki 4hyrningum eins og ég er vön.

Þetta teppi hefur verið vægast sagt ævintýri og í gær var ég að hugsa með mér að ég væri í tómu klúðri og ætti bara að gefast upp. En ég hef óbilandi trú á að þetta teppi verði bara flott þegar það er tilbúið svo ég get ekki gefist upp. Plús það þá væri ég búin að sóa öllum þessum tíma og garni. Það gengur ekki.

Upphaflega átti ég 3 mjööög flotta græna liti til sem Sofia frænka hafði sent mér frá Danmörku. Átti 100 gr dokku af hverjum lit og reiknaði með að það myndi duga.

En þegar ég var langt á leið komin sá ég að ég myndi ekki hafa nóg garn til að klára teppið. Ég gæti jú gert það frekar lítið og heklað með 4ða litinum í kring en það heillaði mig ekki. Svo ég bætti við þessum grá-græn-bláa lit sem ég átti einnig 100 gr dokku af.

En nei mér fannst þessir 4 litir ekki aaaalveg vera að passa saman. Eins flott og mér finnst sprengda garnið þá er það bara ekki að passa með þessum nýja grá-græn-bláa. Þannig ég ákvað að taka sprengda garnið úr mixinu og bæta við öðrum lit.

Þegar sá litur var kominn inn. Fannst mér sá mosagræni alls ekki passa inn í teppið. Og þar sem nýjasti liturinn fæst hér á Íslandi en ekki hinir 3 þá ákvað ég að kippa þessum mosagræna út og hafa bara 3 liti. Baby-blá-græna, blá-grá-græna og dökk-græna.

Þannig hefur ásýnd teppisins breyst heilan helling frá byrjun. Þá er spurningin hvernig á að hekla teppið saman. Ég ætlaði að prófa að hekla það saman með keðjulykkjum en það kom ekki alveg út eins og ég vildi það. Þannig að ég ákvað að gera eins og ég geri vanalega að hekla það saman með fastapinnum.

Eini ókosturinn við það er að þá hallar saumurinn alltaf í aðra áttina og ef saumurinn hallar ekki alltaf í sömu áttina þá getur það orðið ljótt. Það er ekkert mál að passa það þegar heklaðir eru saman 4hyrningar en gæti orðið mun flóknara með svona 3hyrninga þar sem það eru mun fleiri hliðar - væntanlega.

En þegar ég séri þessum prufubút mínum við fékk ég algera hugljómun og gerði enn eina breytingu á teppinu mínu. Nú ætla ég að hekla það saman með keðjulykkjum en hekla það saman á röngunni. Sem sé aftan á teppinu.

Þá liggja brúnirnar svona fallega saman að framan, þó saumarnir sjáist reyndar ef teppið er aðeins togað í sundur en það skiptir engu þegar saumarnir eru í sama lit og einn búturinn. Svo ætla ég mér að hekla í kringum teppið í þeim lit líka.

Þá er bara það eina sem á eftir að ákveða er hvernig ætla ég að hekla í kringum það?

Svo set ég inn myndir af teppinu þegar það er tilbúið c",)
Ætla líka að skellin inn uppskrift af 3hyrning á íslensku við tækifæri.

12 April 2010

Scarf + Hoodie = Scoodie

Veit ekki alveg hvað skal segja um the Scoodie...
Merkilega auðveld. Merkilega þægileg. Merkilega töff.


Merkilega auðveld. Merkilega þægileg. Merkilega töff.
...Á pottþétt eftir að gera fleiri í haust

Afganga Ást ♥

Uppáhaldsteppið mitt um þessar mundir - og kannski bara ever. Er afgangateppið mitt.

Kvöld eitt þegar ég hafði ekkert til að hekla og átti engann pening til að kaupa mér garn ákvað ég að hekla úr afgangs garninu sem ég átti.
Planið var aldrei að gera heilt teppi - hvað þá svona stórt - heldur bara til að stytta mér stundir þar til ég gæti keypt mér garn.

Svo var ég einn daginn í heimsókn hjá ömmu. Sem á meira garn en hún veit hvað á að gera við. Og leyfði gamla konan mér að hirða fullt af afgöngum frá henni. Og þegar ég segi fullt þá meina ég fuuullt.

Svo var bara heklað þar til garnið kláraðist og úr varð fallega litasprengjan mín sem ég alveg hreint elska. Það er stórt, þungt, hlýtt og hið fullkomna sófateppi.

Teppið er samt ekki alveg tilbúið. Garnið kláraðist þegar ég var að hekla hringinn...mér finnst það ekki passa að kaupa garn til að klára teppið. Svo ég bíð þar til rétti afgangurinn kemur með að klára það.

08 April 2010

Byrjunin

Það fyrsta sem ég heklaði var teppi. Eftir það heklaði ég alveg eins teppi. Og annað eftir það. Og mörg mörg önnur alveg eins til viðbótar. Það er reyndar ekki alveg rétt að þau hafi öll verið eins. Litirnir voru jú mismunandi. Og með tímanum urðu teppin mín mun betri. Teppin voru ekki skökk og ég fór að hekla þéttar.

Teppið góða fann ég í prjónablaðinu Tinnu eftir að ég ákvað að búa til gjöf handa Ellý móðursystur minni sem var þá ólétt. Mamma mín er mikil prjónakona og hjálpaði hún mér að læra að hekla eftir leiðbeingingunum sem voru í prjónablaðinu - og eru enn. Mamma kunni ekkert að hekla og ekki nóg með það þá er mamma örvhent. Svo við mæðgur vorum frábært teymi. En allt gekk að óskum og ást mín á hekli fæddist.

Fyrsta teppið
Heklað fyrir Guðmund frænda 1996

Teppið hans Mikaels míns 2001

Teppið hans Ágústs 2002

Annað teppið
Heklað fyrir Kristófer bróðir 1998