26 January 2011

Teppið hennar Emilíu Mist

Ég hef gert aragrúa af barnateppum og flest þeirra strákateppi. Því verð ég alltaf sérstaklega spennt þegar ég fæ að gera stelputeppi.

Í haust kom í ljós að litlasta systir mín væri ólétt og fór hausinn á mér á fullt að hugsa um allt sem ég gæti og ætlaði að hekla handa litla barninu. Húfur, vettlinga, sokka, skó, peysur, auðvitað teppi - og já bara heilan helling! Möguleikarnir eru endalausir þegar kemur að því að hekla handa litlum börnum ekki satt.

Þegar leið á meðgönguna kom í ljós að það var ekki allt eins og það ætti að vera. Og litla barnið var mjög veikt. Við héldum lengi í vonina að allt myndi vera í lagi...en þegar tíminn leið þá kom það betur í ljós að það var því miður alls ekki í lagi.

Því fæddist litlasta frænka mín andvana langt fyrir sinn tíma.

Emilía Mist
f. 17. desember 2010

Hún var svo pinku ponsu lítil, bara 24 cm og 1 mörk, en hún var samt svo sæt.
Alveg ótrúlega smá en samt alveg tilbúin og ótrúlega fullkomin.Hún fékk samt sem áður teppið sitt - það bara mjög sætt þótt ég segi sjálf frá - og fékk teppið að fara með henni í kistuna þegar hún var jörðuð í dag.

15 January 2011

Heklaðir kertastjakar

Ég er lengi búin að hafa áráttu fyrir að safna glerkrukkum. Ég hef aldrei haft neina sérstaka hugmynd um hvað ég ætlaði svo að gera við þær. En það er bara e-ð við glerkrukkur sem heillar mig.
Einn dag fyrir jól stóð ég svo í röðinni í Bónus og las Hús & Híbýli og þá fékk ég þessa snilldar hugmynd að hekla utan um e-ð af þessum krukkum og gera mér aðventukrans. Og úr því fæddist aðventukransinn minn fyrir 2010. Ég er ekkert smá ánægð með kertastjakana mín og ætla að halda áfram að nota þá þótt jólin séu búin. Mér finnst þeir ógeðslega flottir OG birtan frá þeim er enn flottari.

Ein mynd af þeim í birtu.

Ég varð að halda áfram og gera fleiri. Ég fékk þetta svarta garn í jólagjöf og ákvað að gera tvo í viðbót og prófa nýtt mynstur. Þeir eru voða sætir líka EN mér finnst mynstrið ekki jafn flott og í þeim fyrri. Það pirrar mig smá líka að þeir séu ekki alveg eins - annar er teygðari en hinn.
Og ein mynd í birtu.

Eftir þá svörtu þá ákvað ég að gera annan með sama mynstri og þeir hvítu en nú bara í bláu. Smá flækja. En ég er mjög ánægð með hann - er alveg að elska þennan kóngabláa lit.


Ein í birtu.

Mér finnst birtan alveg awesome af þessu. Minnir mig soldið á mystur í lopapeysum.

Og ein mynd að lokum af öllum sjö kertastjökunum.
Ég er búin að gera enn annan kertastjaka síðan ég tók þessar myndir, set myndir inn af honum seinna.
Svo er ég búin að sitja sveitt við að ná miðum og lími af þeim 16 krukkum sem ég á til viðbótar. Alveg magnað hvað límið er pikk fokking fast á sumum krukkum.
Það er allavegana enginn vafi um að það verður heklað utan um fleiri krukkur!

06 January 2011

Enn meira um garn

Ég var að hugsa um páskana í dag og hvort eða hvaða skraut ég gæti heklað fyrir páskana. Þá greip mig þessi skyndilega löngun til þess að kaupa páskagult heklgarn. Svo að á leiðinni í Bónus stoppaði ég við í Ömmu Mús og keypti mér þetta awesome garn á tæpar 1200 krónur.

Eftir að ég hafði borgað spjallaði ég aðeins við konurnar sem voru að vinna þarna og önnur þeirra spurði mig hvort ég heklaði mikið og sagði að ég ætti endilega að koma á útsöluna þeirra sem byrjaði á laugardaginn. Svo bauðst hún til að sýna mér garnið sem færi á útsölu.
Oooog það var svooo flott. Og það var Mayflower sem eru einmitt sama tegund og uppáhalds akríl garnið mitt. Konan var svo almennileg að hún bauðst til að selja mér garnið á útsöluverði 550 kr. þó svo að útsalan væri ekki byrjuð.
Hvernig gat ég sagt nei?!

Og því voru keyptar 3 dokkur í viðbót!

Kóngablár

Mosagrænn

Ljósgrár

Nú er bara að byrja að vinna úr hugmyndunum sem ég er með úr hausnum og framkvæma!

Það er nokkuð ljóst að ég hef litla sem enga sjálfsstjórn þegar kemur að garni c",)

Fleiri snjókorn

Fyrst þegar ég byrjaði að hekla snjókorn var hugmyndin að gera bara handa sjálfri mér til að skreyta jólatréð mitt. En svo fékk ég þá hugmynd að gera snjókorn í jólakortin og þau snjókorn sem ég gerði handa mér fóru aftast í röðina.
Ég náði þó að klára þrjú önnur snjókorn handa sjálfri mér.
Svo á ég enn nokkur hekluð en óstífuð til. Þau verða víst að bíða til næstu jóla.

Þetta snjókorn fann ég í bók sem heitir Lacy Snowflakes
eftir Brendu S. Greer gefin út af Leisure Arts
Þetta er algerlega uppáhaldssnjókornið mitt af öllum.
Svo sem ekki mjög snjókornalegt en ég elska það.
Fann það á Snowcatcher blogginu og uppskriftin er hér.


Annað snjókorn af Snowcatcher blogginu.
Finnst það voða fallegt en veit ekki hvort ég vilji gera fleiri svona.
Þið finnið uppskriftina hér.

Og svo ein mynd af henni Guðmundu jr sem er búin að njóta sín vel í jólatrénu okkar
þrátt fyrir að hafa verið mjög veik.
Og miklar þakkir til Guðmundu systur sem tók myndir af snjókornunum
fyrir mig þegar ég nennti því ekki.

02 January 2011

Garn Garn Garn og aftur Garn

Ég var að taka til í garninu hennar ömmu um daginn. Hún á svo mikið garn í öllum regnbogans litum og svooo mikið af glimmer garni - ég fékk næstum því fullnægingu af því að sortera allt garnið í drasl. Ég var svo rosalega heppin að hún leyfði mér að taka smá af garninu með mér heim. Ekki það að mig hafi vantað neitt garn...en það er bara svo fallegt að ég gat ekki sagt nei c",)