28 October 2012

Handavinnufýla

Ég er gersamlega handóð þegar kemur að handavinnu - eins og nafnið á blogginu gefur til kynna. Stundum þá líður mér eins og hausinn á mér sé að rifna því það er svo mikið af hugmyndum í gangi og ég hef engan veginn nægan tíma til að komast yfir allt saman. Þegar þannig er þá byrja ég gjarnan á nýjum verkefnum áður ég klára það sem ég er þegar byrjuð á. Áður en ég veit af þá er ég komin með alltof mörg verkefni í gang og sum þeirra bara alls ekki að virka eins og þau áttu að gera. Þá er eins og mér fallist hendur og ég fer bara í handavinnufýlu.

Þessi helgi hefur verið þannig. Þótt ótrúlegt megi virðast þá hef ég ekki snert handavinnu í 2 daga og er bara e-ð voðalega andlaus...og eirðarlaus.

Má til með að sýna ykkur kostakaupin sem ég gerði í Góða Hirðinum um daginn. Elska að fara í góða og bara rölta um og skoða allt dótið. Og í einum slíkum rúnti fann ég prjóna og heklunálar til sölu.

Keypti mér:

Heklunálar nr. 1 og 1,25

Sokkaprjóna nr. 4 og 5

Og par af prjónum nr. 5 1/2 og 8
Finnst þessir svakalega flottir.
Elska svona prjóna sem eru aðeins öðrvísi.

Allt þetta kostaði mig bara 1.800 kr.
Finnst það vera kjarakaup.

24 October 2012

Nýjasta æðið mitt

Það er frekar algengt að ég bloggi um krukkur og bjöllur. En það hefur aldrei skeð að ég blogga um prjónaðar krukkur og bjöllur. En það er einmitt að fara að gerast núna!


Nýjasta æðið mitt er nefninlega að prjóna gatamynstur. Ég er alveg dáleidd yfir þessari nýju tækni. Skil ekki afhverju ég hef ekki fattað þetta fyrr. En er mjög glöð að ég sé að uppgötva þetta núna. 

Það er svo yndislega gaman 
að læra e-ð nýtt!



Ég er búin að vera að sitja prjónanámskeiðin hennar mömmu og prjóna bjöllur. Ég var ekkert sérstaklega fljót að prjóna og var eini nemandinn sem náði ekki að klára bjölluna sína. Bjöllurnar mínar urðu líka of stórar því ég prjóna greinilega laust. Sem mér finnst soldið fyndið því ég hekla mjög fast. 

En þriðja bjallan mín er uppáhalds og ég get ekki hætt að dást að henni. Finnst það frekar magnað að ég af öllu fólki hafi prjónað hana - og á prjóna nr 2 í þokkabót.


Ég fékk lánað eitt af bjöllu mynstrunum hennar mömmu og prjónaði utan um krukku. Svo prjónaði ég aðra eins krukku bara á stærri prjóna. Finnst þær báðar alveg ótrúlega fallegar.



Ég fann svo annað mynstur í gegnum Pinterest og gerði aðra týpu af krukku. Jólakrukku! Gatamynstrið myndar jólatré. Það er ekkert alltof greinilegt. En ef kærastinn minn sá jólatré út úr þessu þá held ég að aðrir ættu að sjá það líka.



Það hefur kertaljós logað í fallegu krukkunum mínum í allt kvöld.



Ég er svo hamingjusöm yfir þessari nýfundnu gleði minni í prjóni. Finnst þetta svo spennandi og finnst allt sem ég geri svo geggjað flott. Sælir séu einfaldir. Markmiðið er sett á að prjóna dúk eða/og jafnvel sjal. Ef ég missi ekki áhugann áður en það gerist.


22 October 2012

Snjókorn Snjógríparans #1 - uppskrift



Heklið 4 ll, tengið saman í hring með kl í 1. ll.

1. umf: 3 ll (telst sem 1 st), 1 st inn í hringinn, *2ll, 2st inn í hringinn* endurtakið frá * að * 4 sinnum, lokið umf með því að hekla 1 ll, 1 hst í 3. ll af þeim 3 sem gerðar voru í byrjun umf (þessi 1 ll og 1 hst teljast sem seinustu 2 ll og þú heklar yfir hst í næstu umf).

2. umf: 3 ll (telst sem 1 st), 1 st yfir hst fyrri umf, *2 st, 5 ll, 2 st í næsta ll bil* endurtakið frá * til * 4 sinnum, 2 st í fyrsta ll bilið, 2 ll, 1 st í 3. ll af þeim 3 sem gerðar voru í byrjun umf (þessar 2 ll og 1 st teljast sem seinustu 5 ll og þú heklar yfir st í næstu umf).

3. umf: 3 ll (telst sem 1 st), 4 st yfir st fyrri umf, *10 st í næsta ll bil* endurtakið frá * til * 4 sinnum, 5 st í fyrsta ll bilið, lokið umf með kl í 3. ll af þeim 3 sem gerðar voru í byrjun umf.

4. umf: 3 ll (telst sem 1 st), 1 st í næsta st, 1 hst í næsta st, 1 fp í næsta st, *hoppið yfir næstu 2 st, 1 fp í næsta st, 1 hst í næsta st, 1 st í næstu 2 st, 7 ll, 1 st í næstu 2 st, 1 hst í næsta st, 1 fp í næsta st* endurtakið frá * að * 4 sinnum, hoppið yfir næstu 2 st, 1 fp í næsta st, 1 hst í næsta st, 1 st í næstu 2 st, 3 ll, 1 tvöf st í 3. ll af þeim 3 sem gerðar voru í byrjun (3 ll og 1 tvöf st teljast sem seinustu 7 ll og þú heklar yfir tvöf st í næstu umf).

5. umf: 3 ll (telst sem 1 st), 6 st yfir tvöf st fyrri umf, *7 st í næsta ll bil, 17 ll, kl í 13. ll frá nálinni (8 laga lykkja gerð), 4 ll, 7 st í sama ll bil* endurtakið frá * til * 4 sinnum, 7 st í fyrsta ll bilið, 17 ll, kl í 13. ll frá nálinni, 4 ll, kl í 3. ll af þeim 3 sem gerðar voru í byrjun.

6. umf: 10 ll (telst sem 1 st og 7 ll), *1 st í bilið á milli stuðlahópa fyrri umf, 7 ll, 3 st í næsta ll bil (neðri hluta 8 laga lykkjunnar), 1 hst, 1 fp í sama bil, í næsta ll bil (eftri hluta 8 laga lykkjunnar) er gert [3 fp, 1 hst, 1 st, 3 ll, 1 st, 1 hst, 3 fp, 1 hst, 1 st, 5 ll, 1 st, 1 hst, 3 fp, 1 hst, 1 st, 3 ll, 1 st, 1 hst, 3 fp], í næsta ll bil (aftur í neðri hluta 8 laga lykkjunnar) er gert 1 fp, 1 hst, 3 st, 7 ll* endurtakið frá * að * 5 sinnum, í seinasta sinn er þó sleppt seinustu 7 ll og aðeins 2 st gerðir í stað 3ja, umf er lokað með kl í 3. ll af þeim 10 sem gerðar voru í byrjun.

Slítið bandið frá og gangið frá endum. Stífið snjókornið í rétt form.




Deborah "Snowcatcher" Atkinsson á höfundarréttinn að þessari uppskrift.
Uppskriftin er þýdd og birt hér með hennar leyfi.
Það má ekki afrita uppskriftina á neinn máta nema með leyfi Deborah.



5 góð ráð þegar stífa á hekl eða prjón


Á að fara að stífa snjókorn eða dúka? Þá er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  1. Veldu rétta gerð af stífelsi fyrir þitt verkefni.
    Ef þú ert ekki viss þá getur þú athugað þessa bloggfærslu um stífelsi.
  2. Veldu undirlag.
    Hægt er að nota kork, frauðplast, pappa og ýmislegt annað. Mæli með því að þú setjið smjörpappír undir snjókornið því annars festist það við undirlagið.
  3. Veldu rétta títuprjóna.
    Þú verður að nota ryðfría títuprjóna, væri frekar svekkjandi ef títuprjónarnir lita frá sér. Mæli með því að nota títuprjóna með haus, fingurgómarnir verða ansi aumir ef verið er að næla mikið niður. Ef verkið er smátt og nota þarf marga títuprjóna getur verið gott að hafa stutta títuprjóna því það verður ansi þröngt á þingi.
  4. Notaðu mæliskífu.
    Til þess að verkið þitt sé beint og fallegt verður að nota mæliskífu. Hægt er að teikna hana upp sjálf en ég prenta út mæliskífur af einni frábærri síðu. Á bloggi A Stitch in Time er hægt að hlaða niður mæliskífum með allt frá 5 örmum upp í 24. Hægt er að afrita myndina í Word skjal og minnka hana og stækka eftir hentugleika.
  5. Passaðu að hafa hreina fingur.
    Ekki skemmtilegt að káma út fallega hvíta verkið sitt.
Ef svo allt fer á versta veg og þú ert ekki sátt með stífaða verkið þitt þá er hægt að setja verkið í þvottavél (í svokölluðu brjóstarhaldarapoka) og byrja upp á nýtt. Flest heklgarn er bómullargarn og því ætti það ekki að skemmast neitt í þvotti.

Að stífa hekl...og líka prjón

Ég hef verið að gera nokkrar tilraunir með það að stífa hekl og ákvað að taka saman niðurstöðurnar hérna. Ég hef ekki prufað allt sem er í boði svo ég mun uppfæra þessa blogfærslu þegar ég hef prufað e-ð nýtt.



  • Sykurvatn:
    Ég nota lang oftast sykurvatn, blandað til helminga. Sykurvatnið er tilvalið þegar á að stífa snjókorn og bjöllur og allt annað sem á að verða alveg glerhart. Ég lendi þó oft í vandræðum því sykurvatnið virðist stundum hafa sinn eigin vilja, því jafnvel þótt ég sé að nota sömu blönduna af sykurvatni þá stífast stykkin ekki eins, veit ekki alveg hvað málið með það er. Einn ókosturinn við sykurvatnið er að það vill koma hvít slikja yfir stykkin ef verið er að nota litað garn. Það hins vegar gerist ekki alltaf heldur.
  • Flórsykurvatn:
    Flórsykurvatnið er blandað eins og sykurvatnið, til helminga. Þegar ég notaði flórsykur þá fannst mér eins og stykkin mín væru lengur að þorna en þegarf ég notaði sykurvatn. Stykkin verða vel stíf en þau verða ekki alveg glerhörð. Það jákvæða við flórsykurinn er að hann skilur ekki eftir sig svona slikju á litaða garninu.
  • Kartöflumjöl:
    Ég fann uppskrift að því hvernig ætti að blanda stífelsi úr kartöflumjöli á blogginu hjá Katý. Sú blanda er 1 msk kartöflumjöl og 1 dl kalt vatn hrist saman, 1/2 l af sjóðandi vatni blandað við.
    Snjókornið sem ég stífaði með þessari blöndu varð ekki glerhart en það hélt löguninni. Égg tel að þessi blanda sé mjög góð til þess að stífa dúka. Á eftir að prufa það.
  • Undanrenna:
    Ég prufaði að stífa eitt snjókorn með óblandaðri undanrennu. Það sjókorn varð ekki glerhart en hélt þó lögun sinni. Undanrennan væri því einnig tilvalin til þess að stífa dúka með. Spurningin er þó hvort það sé ekki mikil sóun í því að nota undanrennu því mar notar ekki mikið af henni til að stífa einn dúk og restin fer bara í ruslið - ef mar drekkur hana ekki það er að segja.
  • Stífelsi í spreyformi:
    Ég fór í Föndurlist og keypti svona stífelsi í spreybrúsa. Prufaði að stífa bjöllu með því og það gekk alls ekki upp. Eins og áður þá hélt stykkið löguninni en varð alls ekki hörð. Það væri svo sem hægt að hafa bjöllurnar svona mjúkar í sér en ég vill frekar hafa þær harðar. Þetta er þó prýðilegt til þess að strekkja ferninga sem eru ójafnir og ætti að henta vel þegar verið er að stífa dúka.

Ef þið hafið ábendingar um fleiri aðferðir til þess að stífa þá endilega látið mig vita.

19 October 2012

65 dagar til jóla. 3 dagar í stærðfræðipróf.

Fyrir mig er það alltaf óspennandi hugmynd að læra stærðfræði. Og í dag er ég sko engan veginn að nenna að læra fyrir stærðfræðiprófið sem ég fer í á mánudaginn. Móri kallinn er veikur og það var sko ekki mikið sofið í nótt.

Svo er hugurinn bara allur við komandi jól og jólaskraut.

Ég keypti mér jólaskraut af Etsy. Fann jólaskraut í byrjun þessa árs sem ég hef ekki getað hætt að hugsa um svo ég ákvað að leyfa mér smá lúxus. Seljandinn er PicardCreative.


Fékk að velja mér 6 skraut og borgaði fyrir 30 dollara. Með sendingakostnaði var ég að borga 4.800 kr. Sem er ekki slæmt. En ég er ekki alveg svo sátt við tollinn. Þurfti að borga þeim tæpar 2.800 kr. Finnst það frekar blóðugt, hélt að þeir tækju bara 25%. Og hvað er málið með að taka toll af sendingarkostnaði? Það er bara ljótt.



Þetta er ótrúlega skemmtileg hugmynd.
Þetta eru sem sé dósalok - eins og af ORAbaunum - sem hún er búin að skreyta. 

Þetta jólaskraut er soldið uppáhalds því þetta er svo algerlega e-ð sem kærastinn myndi segja.

Þetta er pottþétt ekki jólaskraut fyrir alla en þetta er akkurat okkar húmor.


CAL teppið mitt gengur ágætlega. Ég gríp svona í það þegar ég er ekki að gera neitt annað og langar í smá slökun sem aðeins hekl getur veitt manni.




16 October 2012

Vefnaður

Þá er komið að vefnaðarhluta ferilmöppunar minnar. Ég hafði ekkert smá gaman af vefnaði. Oft þá var ég samt ekki viss um notagildi þess sem ég var að gera. En ég skemmti mér konunglega á meðan ég var að þessu c",)

Fyrsti vefurinn minn. Mjög svo einfaldur.


Næsti vefur. Fríhendis.


Uppáhaldsvefurinn minn. Mynsturvefurinn.

Fann alveg fullt af mismunandi vefnaðarmynstrum, flest voru ætluð fyrir körfugerð. Eitt sem ég fann var svokallaður Soumak hnútur. Sá vefur kemur út eins og prjón á réttunni. Mjög svo töff. Safnaði saman þeim myndum sem ég fann á Pinterest vefnaðar spjaldinu mínu.


Loðni vefurinn minn.
Gerður með fullt af garni allt með mismunandi áferð.
Kemur virkilega vel út að hafa loðið garn í vef.


Afmælisvefurinn.

Eitt verkefnið var að gera vef sem var úr e-u sem var ekki garn. Helst e-u endurunni. Þetta er afmælisvefurinn minn. Ég fékk auðvitað fullt af gjöfum og geymdi utan af sumum þeirra. Í afmælisvefnum er Sellófan, Plastpoki, e-ð mjúkt efni utan af blómvendi og pakkabönd. Reyndi að nota afmælispappír en hann rifnaði bara.


Sjöan

Við tökum alltaf mánaðarmyndir af Móra. Ég hef verið að setja tölustaf í ramma og gera hann á mismunandi máta. Hef saumað út, perlað, prjónað, teiknað. Og fyrst ég var öll í vefinu þá var tilvalið að vefa handa honum sjöu.


Móri 7 mánaða.


Ofið utan um geisladisk.


Fann svo geggjaðar leiðbeiningar á blogginu Make it...a Wonderful Life þar sem sýnt var hvernig ætti að vefa utan um geisladisk. Ég hugsa að flestir eigi auka disk heima hjá sér og þetta er mjög auðvelt. Ég held að krökkum gæti fundist þetta mjög skemmtilegt. Svo mætti hengja diskinn upp í glugga og þegar sólin skín á hann þá kemur mynstur á vegginn. Hve töff er það?!


Ofið röraband.


Hægt er að gera flott vinaband eða jafnvel bókamerki með því að vefa utan um sogrör. Þú þræðir bönd í gegnum rörin, vefar í kringum þau, kippir svo rörunum í burtu og voila þú ert með fínasta vef. Slóðin á bloggið sem ég fann þetta á virkar því miður ekki lengur svo ég get ekki linkað því.


Ofið utan um kókflöskur.



Mér finnast þessar flöskur svo töff. Ég valdi litina á stærri flöskuna en honum Mikael fannst þetta alveg hreint glatað litaval hjá mér svo hann valdi nýja liti fyrir mig og ég gerði aðra flösku. Mér finnst þær báðar mjög töff.

Fann blogg hjá konu - that artist woman - sem ég held að sé grunnskólakennari í USA. Hún allavegana póstar hellings af föndurhugmyndum sem hægt er að gera með krökkum. Hugmyndin kemur frá henni. Hún notaði þó jógúrtdollur sem hún var búin að setja pappír yfir (paper mache) og ég nennti því ekki. Það er hægt að nota ýmislegt á heimilinu sem annars færi kannski bara í ruslið til þess að gera svona. Til dæmis plast dollur, mjólkurfernum eða gosflöskur.


Ofnir myndarammar.





Fann hugmyndina að þessum geggjuðu sólum á blogginu Michele made me. Ég klippti út morgunkornskassa og pizzakassa (ofnpizzu). Skar svo raufir í hringinn svo hægt væri að vefa í pappann. Með því að hafa sléttatölu eða oddatölu af raufum í pappanum þá kom mismunandi mynstur. Mér datt í hug að þetta gætu verið myndarammi þar sem það var auður hringur í miðjunni. Ég var ekki með neinar myndir á lausu svo ég klippti út myndir úr Fréttablaðinu.
Mér fannst þetta svo geggjað flott hjá mér að ég ákvað að þetta yrði kennsluverkefnið mitt í vefnaðinum.

Í leit minni að hugmyndum að vefnaði með krökkum fann ég alveg heilan helling. Hef safnað því saman á Pinterest 'Vefað með börnum' töfluna mína. Ef ykkur langar að vefa þá mæli ég með því að þið kíkið við.

13 October 2012

Þæfing

Í næstu viku er ég að fara að skila af mér öllum verkefnunum í þæfingu. Þæfingin greip mig ekki eins mikið og margt annað. En ég verð þó að játa að það er hægt að gera helling skemmtilegt í þæfingu.

Blautþæfing:

Ég gerði tvö verkefni í blautþæfingu. Þetta var ekki alveg fyrir mig. Ég er enn léleg í bakinu eftir meðgönguna og á erfitt með að standa lengi og allt þetta rúll fram og til baka fer illa í sinaskeiðabólguna mína sem hefur heldur ekki kvatt mig eftir meðgönguna. En þetta kemur skemmtilega út og er örugglega mjög skemmtilegt að sjá hvað krakkar gera.



Þæfði utan um þessa krukku líka. Fann leiðbeiningar hér um hvernig mætti gera svoleiðis. Pælingin var að þetta væri eins og kvöldhiminn og því saumaði ég litlar stjörnur í. Mér finnst þó efnið vera aðeins of þykkt um krukkuna því ég vildi að það sæist meira í gegn þegar ég kveikti á kerti.




Þurrþæfing:

Í fyrstu fannst mér þessi þurrþæfing hálf glötuð. Að stinga með nál aftur og aftur í e-ð stykki. En eftir því sem ég gerði meira þá fannst mér þetta bara glimmrandi skemmtilegt. Fyrsta verkefnið mitt var bangsi með rautt hár. Ég ætla að gefa Móra hann þegar áfanginn er búinn.


Því næst þurrþæfði ég nokkrar kúlur. Bæði einlitar og mislitar. Og bjó til armband og hálsmen. Ímynda mér að stelpum gæti fundist þetta skemmtilegt.




Hluti af námskeiðinu er að gera kennsluverkefni í þæfingu. Eftir að hafa lagt hausinn í bleyti...og stungið mig nokkrum sinnum á þurrþæfingarnálinni komst ég að því að þurrþæfing er ekki fyrir unga krakka. Mér datt í hug að þurrþæfa fígúrur og líma segul aftan á. Ég notaði hann Mikael minn (11 ára) og Gissur kærastann (30 ára) til þess að prufukeyra hugmyndina mína. Þeim líkaði báðum mjög vel og gerðu meir að segja tvö stykki hver þó ég hafi bara beðið um eitt. Það var því handavinnukvöld á þessu heimili seinasta föstudagskvöld.

Nýju ískápaseglarnir okkar!

Rauði stóri er eftir Gissur.
Bleika doppótta kanínan og herramaður með hatt er eftir mig.
Creeperinn og kallinn úr Aulinn ég (Despicable Me) er eftir Mikael.

Gissur bjó síðan til þessa fléttu-lengju.

Þæft í þvottavél:

Ég heklaði mér Kríu úr Þóru heklbók fyrr á árinu. Ég notaði einband í verkið og þrátt fyrir að hafa reynt að mýkja sjalið með nokkrum mismunandi leiðum þá hef ég aldrei getað notað sjalið því það stingur. Í stað þess að láta það bara liggja inní skáp áfram ákvað ég að þæfa það. Skellti í þvottavél og þurrkara. Klippti, saumaði, fyllti af troði og skreytti aðeins með pallíettum og voila nú á ég þennan fína nálapúða.



Verkefnið sem kom mér mest á óvart hvað varðar skemmtilegheit var gamla ullarpeysan sem ég þæfði. Ullarpeysan fékk sömu meðferð og Kríu sjalið - þvottavél og þurrkari. Ég klippti framhliðina úr peysunni þræddi e-a perlur á stykkið og ákvað svo að þurrþæfa mynd og úr varð þessi dýrgripur.


Þegar ég var búin kom Mikael heim úr skólanum, sá hvað ég var að gera og vildi fá að gera líka. Sem gladdi mig mjög mikið. Ég tók nokkrar myndir af honum og vinnuferlinu hans.

Hluti af kembunni sem við keyptum okkur í A4. Keyptum slatta!

Að klippa bakhliðina úr peysunni.

Hann er svo sniðugur hann sonur minn.
Honum vantaði liti sem ekki voru til í kembu,

fékk því að gramsa í garnskúffunni minni 
og fann til ullargarn í þeim litum sem vantaði uppá.


Byrjaður að þæfa.

Lokaútkoman varð svo Nyan-Cat...svona aldrei þessu vant.

Stykkin og mæðgina saman.

Að lokum ein skemmtileg mynd af Mikael að bregða á leik með ullarpeysuna góðu.
Hann verður mjög glaður að vita af þessari mynd á blogginu mínu c",)


Og þar með líkur þæfingarævintýri mínu. Svona í bili.
Má til með að benda ykkur á Pinterest albúmið mitt fyrir þæfingu. Þar hef ég safnað saman fullt af hugmyndum sem mér finnast flottar og nota óspart.