29 August 2012

Hvatvís garn kaup

Ég gat ekki sofnað eina nóttina og fór því í tölvuna. Af e-m ástæðum endaði ég inná vefverslun - Yarnstickshop -  sem selur ótrúlega fallegt heklugarn að nafni Cléa og Clara. Ég var uppnumin af litagleðinni og keypti mér 8 dokkur af garni.

Garnið var svo sem ekki dýrt 2,10 pund. En þegar sendingakostnaður og tollur var búið að bætast á kostaði dokkan ca. 830 kr. 

Mér brá samt smá þegar ég fékk pakkann. Hann var svo lítill. Dokkurnar reyndust nefninlega vera aaaaðeins minni en ég hélt. Hver dokkar er ekki nema 125 metrar. En dokkurnar sem ég kaupi hérna heima á hinum ýmsu stöðum kosta um 1000 kr. og eru ca. 300 metrar. Þannig að þetta var ekki alveg að borga sig.

En litirnir eru svo fallegir að þetta var algerlega þess virði!



cobalt blue - light moss green



old gold - medium sea green



emerald green - pale turquoise



violet - sunset orange













Og þá er bara að byrja að hekla!

25 August 2012

11 árum seinna

Kannast e-r annar við það að byrja á verkefni, klára það ekki alveg og geyma inní skáp í mörg ár? 

Þegar ég var ólétt af Mikael mínum árið 2001 saumaði ég 4 kisu myndir sem ég ætlaði mér að hafa í herberginu hans. E-ð gekk mér illa að finna ramma sem myndirnar pössuðu í og því enduðu þær ofan í skúffu. Með tímanum óx Mikael kallinn svo upp úr þeim og þær komu ekkert upp úr skúffunni.


Núna 11 árum síðar hef ég LOKSINS sett myndirnar í ramma!
Það var alveg smávegis púl að koma myndunum í ramma án þess að þær yrðu skakkar.
En að lokum tókst það og tókst bara vel.


Ekki nóg með það
heldur gerðist ég svo fræg í dag
að hengja myndirnar upp á vegg í herberginu hans Móra.


Það skemmir alls ekki fyrir að litirnir í myndunum
eru þeir sömu og í teppinu sem ég heklaði handa honum Móra mínum,
óróanum hans og fleira dóti.
Ætli blár og appelsínugulur verði ekki bara þema litirnir í herberginu hans.


Kemur bara frekar vel út þótt ég segi sjálf frá.


Hér er svo prinsinn. í herberginu sínu.
6 mánaða gamall og nýbyrjaður að sitja.
Algert krútt.

21 August 2012

Menningarlega ég

Ég hef ekki verið jafn upptekin yfir helgi síðan ég bara veit ekki hvenær. Var alveg ótrúlega menningarleg aldrei þessu vant.

Strætógraff:
Ég var búin að gera 8 stykki - eða 4 sessur og 4 bök - til að graffa í strætó. Plús þá var ég með tvær fánalengjur. Mætti á svæðið um klukkan 4 á föstudaginn. Ætlaði að vippa þessu af og koma mér svo heim því ég var búin að vera e-ð óhress um daginn. En um leið og ég var komin á staðinn og byrjuð að sauma í sætin hresstist ég öll við. Það var samt fokk erfitt að sauma heklið fast við sætin. Ég var svo heppin að klókar konur í hópnum höfðu komið með bognar nálar sem allir gátu fengið. Annars hefði þetta tekið mig alla nóttina. Þegar klukkan var orðin 8 var ég búin að sauma 4 stykki föst og byrjuð á því 5ta en gat ekki gert meir þar sem ég var orðin stútfull af mjólk og heima beið ungur maður sem vildi fá hana.
Verkið tók í heild sína rúma 7 tíma og er strætóinn svo flottur að ég á ekki nógu stór orð til að lýsa því.
Myndir segja meira en 1000 orð og er hægt að nálgast fleiri og betri á bloggi graffhópsins Reykjavík Underground Yarnstormers.






Markaður Káratorgi:
Á menningarnótt (dag) fórum við systur Guðrúnardætur og vorum með vörurnar okkar til sölu á markaði. Það var svo svakalega heitt og næstum enginn vindur á torginu. Ég hélt það myndi líða yfir mig af hita. Salan gekk ágætlega. Hitti fullt af fólki. En ég veit ekki hvort ég nenni að vera á svona markaði aftur. Hefði eiginlega frekar langað til að vera á rölti um bæinn með strákunum mínum. Geri það næst c",)


Borðið okkar.
Stórglæsilegt þótt ég segi sjálf frá.


Slaufu-spennur í hárið.


Nælur.


Eyrnalokkar.


Veggskraut.
  

Bókamerki.


Hálsmen.


Nafnspjöld okkar systra.


Krukkurnar mínar komnar með litríka merkimiða.


Mér finnst þessi litagleði æðisleg.


Markaðslíf.


Móri kom að heimsækja mömmu sína á markaðinn.
  

Mikael heimsótti mömmu sína líka
en fannst markaðslífið ekkert sérlega spennandi.

16 August 2012

Handverksmarkaður á Menningarnótt

Um helgina ætlum við systur að taka þátt í Handverksmarkaði á Menningarnótt. Þetta verður annað árið í röð sem við gerum þetta.
Í ár verður markaðurinn á Káratorgi, sem er á milli Kaffismiðjunnar Kárastíg og Drekans Njálsgötu. Markaðurinn er Laugardaginn 18. ágúst frá 12-16.


Ég er búin að vera að hekla utan um nokkrar barnamatskrukkur til að selja á markaðnum. Er ekkert smá ánægð með þessa litagleði hjá mér og missti mig aðeins í að taka myndir af krukkunum...svona aldrei þessu vant c",)

Þessar krukkur eru allar til sölu og kosta 1000 krónur stykkið.




Bleik og Beis litablanda

Fánalitirnir



Pastel litir


Jólacombo


Grátt og Gult er í tísku núna



Allar krukkurnar í litaröð
Er alveg ástfangin af þeim










Guðmunda mín var auðvitað á staðnum.


Mér finnst krukkurnar mínar svo fínar að ég verð ekkert svo sár ef þær seljast ekki. Þá get ég bara átt þær sjálf!