23 January 2012

Appelsínugult garn - afrakstur

Þá er appelsínugula garnið mitt tilbúið og notað. 

Ég ákvað að lita 3 dokkur af einbandi með appelsínugulu Kool Aid. Ég notaðist við merkilega skemmtilega aðferð þar sem klakar eru notaðir til að gera garnið mislitt. Fríða sem heldur úti Prjónablogginu er með flottar leiðbeiningar um þetta á blogginu sínu.

Ég var mjög ánægð með útkomuna og fannst garnið mjög flott þegar ég var búin að vinda garnið upp í kúlu. En oft finnst mér sprengt/marglitt garn mjög flott þegar það er bara hnykill en ekkert sérstaklega flott þegar ég er búin að hekla úr því.



Það var bara eitt sem ég lennti í veseni með í þessu ferli. Litaði 3 dokkur, allar á sama tíma, í sama eldfasta mótinu, en samt sem áður komu þær ekki eins út. 
Ég var ánægðust með þá dokku sem var appelsínugulust (neðri myndin)



Ég ákvað að hekla úr dokkunum eftir "dökkleika" og finnst í raun ekki sjást á sjalinu sem ég heklaði að dokkurnar hafi verið mislitar.



Sjalið sem ég heklaði úr garninu er sjalið Kría úr Þóru heklbók. Ég er að fíla hvað sjalið er auðvelt að hekla en samt sem áður er skemmtileg áferð á því.


Ég gerði 55 umferðir sem er aðeins stærra en uppskriftin segir til um. Það er enn of lítið fyrir minn smekk svo ég verð að plögga mér meira garni. Er að hugsa um að lita svo bara allt sjalið alveg æpandi appelsínugult þegar ég er búin að stækka það.



Þá er bara eitt vandamál eftir. Ég þrái að geta notað einband í sjalaheklinu mínu (ég elska hekluð sjöl) því það er bæði ódýrt og gott úrval af litum í boði. En ég meika ekki lopa og get ekki haft sjalið um hálsinn því það stingur mig svo mikið. Ég er búin að þvo sjalið í þvottavélinni á ullarprógrammi með lopasápu og það mýktist...en ekki nóg. 


Nú veit ég að það eru klárar handavinnukonur sem skoða bloggið mitt - hafið þið ráð fyrir mig? Hvernig á ég að mýkja einbandið svo það meiði mig ekki?



05 January 2012

Appelsínugult garn

Ég ákvað að prufa að lita hvítt garn appelsínugult. Ég googlaði heimalitað garn og fann alls konar myndir. Mikið til af fallegu garni með appelsínugulum tón. 

Mikael kallinn sat með mér þegar ég var að skoða þessar myndir og fékk hann að velja hvaða garn við ættum að reyna að stæla.

Búið er að lita garnið og býð ég spennt eftir að það þorni. Þori ekki að segja til um það hvort litunin heppnaðist vel eða ekki. Kemur í ljós.




















Kollvarps Krosssaumur

Sorglegt en satt þá hefur verið lítið um hekl hjá mér upp á síðkastið. Enn einn yndislegur fylgisfiskur meðgöngunnar er mættur á svæðið - í þetta sinn er það sinaskeiðabólga. Eins ákveðin og ég var í að hætta alls ekki að hekla þá er sársaukinn ekki þess virði. Ég er þó ekki hætt alveg að hekla, stelst til að hekla smá og smá í einu.


Af þessum ástæðum tekst mér ekki að sinna markmiðinu sem ég hafði sett mér að hekla 30 ferninga á 30 dögum.


Ég hef verið að sauma krosssaum upp á síðkastið og virðist það ekki fara jafn illa í hendurnar á mér. Ég fæ þó stundum nálardofa af því að halda á nálinni.


Hendi inn myndum af kollvarps krosssaumi - eða Subversive Cross Stitch - sem ég gaf barnsföður mínum í jólagjöf. 


Fann textann á Flickr
Þetta er lína úr lagi eftir Tori Amos


  
Eins og vanalega þá er Guðmunda kisa alltaf nálægt þegar handavinna er mynduð.


Ef ykkur vantar stafi til að sauma eftir þá er þetta brilliant síða þar sem hægt er að búa til sinn eigin texta, 6 mismunandi leturgerðir.