18 November 2012

Zpagetti motta

Eins og ég hef minnst á áður þá fékk ég tvær dokkur af Zpagetti garni í afmælisgjöf. Á miðanum stóð að það ætti að nota heklunál nr. 12 og hún fylgdi með í afmælispakkanum.


Það var samt ekki að ræða það að ég gæti heklað með þessari nál. Hún var hreinlega of lítil fyrir þetta garn. Ég spurðist fyrir á meðal annara heklara og þær sögðust vera að nota nálar nr. 10 eða 12. Ég hélt að málið væri bara að ég heklaði svona svakalega fast. 

Eeeen svo fór ég í Föndru um daginn og sá annað Zpagetti garn og þá fattaði ég afhverju ég átti í vandræðum. Garnið sem ég var með var miklu þykkara en venjulegt Zpagetti garn og stífara. Haut að vera.

Eftir að hafa fengið heklunál nr. 15 í gjöf frá mömmu þá byrjaði ég að hekla.


Ég gafst upp á að reyna að hekla í hring og ákvað að hekla bara fram og til baka. Það gekk mun betur og ég var enga stund að hekla mottuna. Hafði tærnar á mér með á myndinni svo stærðin sæist almennilega...mottan er 70x50 cm á stærð...og ég nota skó nr. 39 btw.


Hér sést nálin nr. 15, Zpagetti garnið.
Heklunál nr. 4,5 fékk að vera með á myndinni til að sýna stærðina betur. 


Í lokin ein mynd af flensuprinsinum Móra með Zpagetti-garns-kórónu og heklunálar-veldissprota c",)

16 November 2012

Í fréttum er þetta helst

Stundum finnst mér eins og ég verði að gera massa stórt teppi til þess að geta prufað nýtt hekl. En ég nenni ekki alltaf að gera heilt teppi og því sleppi ég að prufa. En eftir að ég byrjaði í skólanum og er búin að vera að gera alls kyns prufur og þá er ég uppnumin af þeirri snilld sem prufur eru.

Þannig að um daginn gerði ég prufur. Sofia frænka kom í heimsókn frá DK og kenndi mér að gera Lævirkjahekl (Larksfoot). Sem er virkilega skemmtilegt en einstaklega auðvelt hekl.



Ég gerði líka prufu að annari týpu af hekli. Ég sá teppi sem Kata ská-frænka mín var að hekla og ég hef ekki séð áður, held að hún hafi fundið það í gömlu blaði. Fannst það virkilega skemmtilegt svo ég tók mynd af því og hermdi. Finnst þetta einstaklega töff.




Í skólanum er ég að byrja í Efnisfræði og klára þannig önnina. Þetta gæti orðið mjög áhugavert. Við byrjuðum efnisfræðina á að læra um íslensku ullina og svo fengum við prufur að alls konar ull sem er ekki algeng á Íslandi (eða ég held allavegana ekki). Þarna var angóru-ull, llama-ull, vísunda-ull, sauðnauts-ull, kamel-ull, kínversk kiðlinga-ull. Ég þarf algerlega að skoða ullargarn betur.


Um daginn fór ég í A4 og keypti mér hamingju í formi Kambgarns á afslætti. Ég keypti alveg massa mikið af garni í hellings litum...án þess að hafa nokkuð ákveðið verkefni í huga. Ég veit ekki hvort mér á að finnast það sorglegt eða ekki hvað mér finnst gaman að kaupa garn.



Það er búið að vera mikið að gera í skólanum og lífinu svo ég hreinlega varð að hafa heklverkefni við höndina til að stelast í á kvöldin. Vinapar okkar á von á litlum manni í heiminn 29. nóvember og tilvalið að smella í eitt teppi handa honum og nýta þannig Kambgarnið sem ég keypti og nýja Lævirkjaheklið.



Ef ykkur finnst Lævirkjaheklið flott og langar að læra
þá verð ég með námskeið miðvikudaginn 21. nóvember.