Pages

19 April 2010

Hvernig á að byrja - Snúnings- og byrjunarlykkjur

Þegar heklað er fram og til baka eða í hringi þarf að hekla vissan fjölda af auka loftlykkjum í byrjun hverrar umferðar. Þessar auka loftlykkjur eru til þess gerðar að fá nálina upp í rétta hæð fyrir það spor sem þú ert að fara að hekla. Þegar heklað er fram og til baka eru þessar auka loftlykkjur kallaðar snúningslykkjur, en þegar heklað er í hringi eru þær kallaðar byrjunarlykkjur.

Snúnings- eða byrjunarlykkjan er oftast talin sem fyrsta sporið í þeirri umferð, nema þegar er verið að gera fastapinna þá er þessi eina lykkja hunsuð.
Dæmi: 3 ll (teljist sem 1 st) í byrjun umferðar þýðir að snúnings- eða byrjunarlykkjurnar eru 3 loftlykkjur sem jafngilda einum stuðli.

Stundum eru lykkjurnar fleiri en þörf er á, þegar þannig er eru lykkjurnar taldar sem eitt spor og svo auka lykkjur.
Dæmi: 5 ll (teljist sem 1 st, 2 ll) þýðir að fyrstu 3 loftlykkjur teljast sem einn stuðull og hinar 2 loftlykkjur eru hluti af mynstrinu sem verið er að hekla.

Í lok hverrar umferðar er seinasta sporið lang oftast heklað í snúnings- eða byrjunarlykkju fyrri umferðar. Lokasporið er annað hvort heklað í efstu loftlykkju fyrri umferðar eða þá loftlykkju sem tekin er fram.
Dæmi: 1 st í 3. af 5 ll þýðir að seinasta sporið er stuðull og er hann heklaður í 3. snúnings- eða byrjunarloftlykkju af 5.

Hvað þarf margar loftlykkjur fyrir hvaða spor:
(sjá mynd)

Fastapinni (fp) - 1 loftlykkja (ll)
Hálfur stuðull (hst) - 2 loftlykkjur (ll)
Stuðull (st) - 3 loftlykkjur (ll)
Tvöfaldur stuðull (tvfp) - 4 loftlykkjur (ll)


Myndirnar og hluta textans fékk ég lánað úr bókinni
200 Crochet blocks eftir Jan Eaton.
Þessi bók er bara snilld, kenndi mér ótrúlega mikið!

1 comment:

  1. Þetta er algjörlega frábær síða, takk fyrir!!

    ReplyDelete